145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[16:22]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann kom víða við og sannarlega væri hægt að spyrja um marga hluti. Fjármálastefnan og fjármálaáætlunin er hvort tveggja mjög merkilegt plagg og náttúrlega hápólitískt þannig að þar er ríkisstjórnin að segja hvernig hún mundi forgangsraða næstu fimm árin fengi hún að ráða.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að með þeirri áætlun sem birtist fyrir heilbrigðisþjónustuna til næstu fimm ára sé verið að svara því kalli sem 86 þús. manns kröfðust með undirskrift sinni, þ.e. að forgangsraða ætti fjármunum til heilbrigðismála fyrst og fremst. Telur hv. þingmaður að þessi áætlun sé að svara því kalli? Ég vil draga það í efa. Við getum bara horft á tölurnar fyrir spítalaframkvæmdir eða spítalaþjónustuna þar sem gert er ráð fyrir að frá árinu 2007 sé aukningin 2,3 milljarðar, það er þá bæði fyrir Landspítalann og fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri, þegar Landspítalinn hefur sagt að bara vegna mannfjöldaþróunar og hækkandi meðalaldurs þyrfti hann að fá rúma 2 milljarða. Svo er aukin viðhaldsþörf upp á aðra rúma 2 milljarða. Tækjakaupin þyrftu að fara í tæpan hálfan milljarð, þannig að við erum strax farin að sjá það, að ég tel, að á fyrsta árinu og næstu árum á eftir muni spítalaþjónusta í landinu lenda í vanda og í raun þurfi að draga úr þjónustu frekar en að auka í hana eins og þjóðin hefur kallað eftir.