145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[16:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mikilvægt að hafa í huga að ferðaþjónustan er mjög ung atvinnugrein. Við virðumst sem betur fer enn þá uppfylla þær væntingar sem ferðamenn gera en það má lítið út af bregða. Maður finnur það þegar maður ferðast sjálfur um landið að það er bæði að finna ferðaþjónustu sem er að innihaldi mjög góð og líka annað þar sem menn virðast vera fyrst og fremst að hugsa um stundargróða en ekki langtímahagsmuni. Auðvitað þurfum við að taka mið af því að við erum að bera saman ferðaþjónustuna við atvinnugreinar sem hafa verið til í áratugi og fengu jafnvel stuðning þegar þær voru að byrja. Við höfum nú ekki stutt ferðaþjónustuna með beinum styrkjum, ég vona að við séum ekki að fara þangað, en við skulum hafa það í huga að þegar við skattleggjum þá hefur það áhrif.

Hins vegar er það mín upplifun sem ferðamaður út um allan heim, kannski ekki allan heim en mjög víða, að þar borgar maður fyrir þá þjónustu sem maður fær. Þegar maður keyrir vegi t.d. í Evrópu þá borgar maður fyrir það. Ef maður notar salernisaðstöðu á þeim stöðum sem maður kemur á finnst manni alveg sjálfsagt að greiða fyrir það því allt kostar þetta peninga. Spurningin er þá hver borgar. Ég verð að viðurkenna (Forseti hringir.) það, virðulegi forseti, að mér finnst eðlilegt að þeir ferðamenn sem hingað koma og nota þjónustuna borgi fyrir hana.