145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[16:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé enginn ágreiningur í þessum sal um mikilvægi aðferðafræðinnar sem hér er undir, þ.e. að skipulega og agað sé unnið að ríkisfjármálum og það séu gerðar áætlanir a.m.k. til meðallangs tíma. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að það þurfi að undirbyggja grunn fyrir gerð þjóðhagsáætlunar til langs tíma þar sem ekki er horft bara einhver ár heldur jafnvel áratugi inn í framtíðina og Alþingi vel að merkja samþykkti slíkt í vor, þannig að undirbúningur á að vera hafinn undir það í stjórnkerfinu, þingsályktunartillögu sem ræðumaður lagði fram.

Þegar sagt er að hér sé verið að vinna með áætlun af þessu tagi í fyrsta sinn er rétt að hafa það innan gæsalappa því að sjálfsögðu hefur verið stuðst við svona áætlanagerð allmörg undanfarin ár. Þannig kom fram ríkisfjármálaáætlun til meðallangs tíma strax vorið 2009 þar sem lagðar voru línur um það hvernig við kæmum ríkisfjármálunum aftur í sjálfbært horf og kæmumst út úr hremmingunum. Sú áætlun var síðan uppfærð og dreift sem þingskjali og gefin út sem sérstakt rit, bæði 2011 og 2012. Það er því rétt að hafa þann fyrirvara á því tali um að verið sé að vinna með áætlanagerð af þessu tagi í fyrsta sinn. En í skilningi um opinber fjármál erum við vissulega komin á nýjan stað, það er rétt.

Það sem ég tel vera aðalveikleika þessarar áætlunar er að það er í anda hægri stefnunnar keyrt á mjög lágu hlutfalli frumgjalda ríkisins af vergri framleiðslu. Þessi áætlun er örlítið skárri en það sem hæstv. fjármálaráðherra sýndi í fyrra og hittiðfyrra þar sem gert var ráð fyrir að þessi frumgjöld færu beinlínis lækkandi sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Nú eiga þau að standa í stað. Þetta er m.a. ástæðan fyrir því að fjárfestingarstig ríkisins verður næstu árin allt of lágt, algerlega ósjálfbært, eða 1,3–1,5% af vergri landsframleiðslu. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hver eru rök meiri hlutans fyrir því að það gangi upp, t.d. miðað við þær upplýsingar sem hellast yfir okkur úr öllum áttum um ástand vegakerfisins sem er gjörsamlega að brotna niður í höndunum á okkur og þolir ekki þessa auknu umferð o.s.frv.? (Forseti hringir.) Hvernig réttlæta fulltrúar meiri hlutans það að keyra áfram næstu árin á óbreyttu og svona allt of lágu fjárfestingarstigi ríkisins?