145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[16:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Án þess að vilja karpa svona um verklagið leikur enginn vafi á því að lögin um opinber fjármál eru tímamót hvað þetta varðar. Núna er það þannig að við munum ræða langtímaáætlun í ríkisfjármálum á vormánuðum, sem aldrei hefur verið gert áður og það er uppleggið fyrir viðkomandi ríkisstjórnir í framtíðinni. Það er gott að um það sé samstaða. Þetta eru auðvitað gríðarlega stórar breytingar, eðli málsins samkvæmt, en menn hafa ekki bara sett puttann út í loftið á undanförnum áratugum heldur hafa með ýmsum hætti horft til lengri tíma. En þetta verklag er nýtt. Ég held við ættum að fagna því.

Virðulegi forseti. Eitt af því sem þetta snýst um þegar við hugsum til lengri tíma er sveiflujöfnunin. Við leggjum áherslu á það í nefndarálitinu og ég vek aftur athygli á því að við komum ekki með breytingartillögur út af þeim ástæðum sem ég nefndi áður heldur vekjum athygli á því sem okkur finnst þurfa að skoða sérstaklega. Það er alveg rétt með innviðauppbygginguna og það hefur ekki verið viðhald á vegum t.d. eða nýframkvæmdir, það hefur verið mjög lítið um það á undanförnum árum. Menn geta deilt um það hvort menn hafi forgangsraðað rétt í kjölfar fjármálahrunsins. En það sem við þurfum alltaf að taka mið af eru stóru hagsmunirnir í þessu. Það er ekki bara litið til langs tíma til þess að líta til langs tíma, menn hugsa þetta sem sveiflujöfnun líka. Vandi okkar núna t.d. þegar við erum að fara í Landspítalann, sem er mjög mikilvægt og löngu komin þörf á, er það hvaða áhrif það hefur á aðrar framkvæmdir. Það er alveg gríðarlega eftirspurn núna. Það eru byggingarkranar úti um allt. Við erum aftur að flytja inn erlent vinnuafl. Við viljum auðvitað ekki ganga þannig fram, og það er verkefni þeirra sem vinna úr þessu í framhaldinu, að við setjum verðbólguna af stað og ógnum þeim stöðugleika sem hefur sem betur fer verið hér. Hins vegar get ég verið sammála hv. þingmanni, og það er tekið fram hvað eftir annað í áætluninni, (Forseti hringir.) að æskilegt væri að forgangsraða enn frekar til þess að fara í innviðauppbyggingu.