145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[16:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel reyndar að núverandi ríkisstjórn hafi gert mikil mistök með því að halda ekki þeim takti sem var settur af stað í tíð fyrri ríkisstjórnar þegar aukið var við fjárfestingar í innviðum með fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar á árunum 2012/2013, heldur að slá það allt saman af og halda síðan bara óbreyttu hlutfalli sem er ekki sjálfbært. Sagan kennir okkur að fjárfestingar ríkisins þurfa að vera að lágmarki 2–2,5% af vergri landsframleiðslu bara til þess að halda í horfinu. Þar til viðbótar þyrftu sveitarfélögin að fjárfesta fyrir svona 1,5%, en hvorugur aðilinn gerir það. Fjárfestingarstig hins opinbera er háskalega lágt.

Já, það þarf auðvitað að gæta að hagstjórnaráhrifum slíkra hluta. Það má m.a. mæta því með því að slíkar fjárfestingar séu fullfjármagnaðar, að sjálfsögðu, það væri ekki gáfulegt að fara að auka framkvæmdir fyrir lánsfé við núverandi aðstæður í hagkerfinu. Séu þær fullfjármagnaðar og þeim dreift skynsamlega, t.d. viðhalds- og nýbyggingaframkvæmdir í vegamálum þannig að þær dreifst jafnt út um landið, þenslan er ekkert að drepa menn á mörgum öðrum svæðum á landinu, þá er margt hægt að gera í þeim efnum.

Hv. þingmaður talar gjarnan um skuldina (Forseti hringir.) sem liggur í framtíðarlífeyrisskuldbindingum ríkisins. Það er gott, við þurfum að fara að huga að því að borga inn á þær. (Forseti hringir.) En við erum að búa til alveg sams konar skuld með því að ganga á innviði samfélagsins.