145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún vekur upp margar spurningar. Nú geta menn haft allar skoðanir á uppbyggingu á barnabótakerfinu en ég verð að viðurkenna að ég get ekki skilið hvernig það getur aukið á misskiptingu ef barnabótakerfið er þannig byggt upp að það snúi fyrst og fremst að þeim sem minnst hafa. Menn geta haft þá skoðun að það sé ekki rétt eða eigi að gera það öðruvísi en tekjutengdar barnabætur hljóta frekar að minnka muninn á milli tekjuhópa, ekki auka misskiptinguna eins og kom fram hjá hv. þingmanni.

Það sem vakti athygli mína var að í nefndaráliti 1. minni hluta er mjög mikið um útgjöld og mjög stórar upphæðir. Ég er að reyna að átta mig á því hvernig eigi að fjármagna þessa hluti. Það kemur þó skýrt fram að það eigi að hækka skatta á ferðaþjónustu um 10 milljarða. Síðan vildi ég spyrja hv. þingmann sem talar um gjald fyrir auðlindir í nefndarálitinu og í ræðu sinni: Hvaða gjald er um að ræða? Síðan vil ég líka spyrja hv. þingmann um veiðiheimildir en hún talaði um fullt verð fyrir veiðiheimildir: Hvernig er það dregið fram? Sömuleiðis er talað um aðra fjármögnun fyrir hækkun á útgjöldum fæðingarorlofs, ekki hækkun tryggingagjalds. Það væri ágætt að fá sömuleiðis svar við því. Einnig hvort það sé rétt skilið að hugsunin sé sú, ef Samfylkingin hefur eitthvað um það að segja, að koma aftur á þessum eignarskatti, sem lenti nú fyrst og fremst á eldri borgurum, sem kallaður var auðlegðarskattur. Það má skilja það þegar maður les nefndarálitið að það sé vilji Samfylkingarinnar.