145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[18:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir alveg prýðilega ræðu og ágætisnefndarálit. Það er svolítið annar tónn en hjá stjórnarandstöðunni sem kemur fram hér. Ég er sérstaklega ánægður með kaflann um forvarnirnar. Það er í rauninni það eina sem við getum gert í alvöru til þess að minnka heilbrigðiskostnað, að vera með alvöruforvarnir. Það er algjörlega söngur í mínum eyrum að heyra hv. þingmann tala með þessum hætti. Þetta var það sem ég lagði áherslu á þegar ég var í stól heilbrigðisráðherra og vonast til þess að almenn samstaða verði um að breyta hugsunarhætti landsmanna, því að þetta er gríðarlega mikilvægt.

Ég ætla aðeins að spyrja hv. þingmann út í hluti sem snúa að tekjuöfluninni hjá henni. Það liggur fyrir að hv. þingmaður leggur til hækkun á virðisauka á gistingu, bara svo ég skilji þetta rétt, og hækkun á tekjuskatti einstaklinga. Mér fannst ekki alveg skýrt varðandi arð af auðlindum, hvað hv. þingmaður var að vísa í þá. Mér finnst það ekki alveg nógu skýrt í textanum. Ef hv. þingmaður mundi upplýsa mig og aðra um það og hugsanlega líka ef það eru aðrar auknar tekjur sem hafa farið fram hjá mér við lestur álitsins væri gott að fá það.