145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[19:04]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að halda áfram að fara yfir álit 2. minni hluta í fjárlaganefnd og taka m.a. fyrir fæðingarorlof, barnabætur, fjárfestingu og umhverfis- og loftslagsmál. Ég byrjaði að fjalla um velferðarmálin áður en ræðutíma mínum lauk áðan og var búin að taka fyrir heilbrigðis-, mennta-, húsnæðis- og löggæslumál og nú ætla ég að fara í fæðingarorlofið.

Fæðingarorlof og barnabætur eru meðal þeirra félagslegu ráðstafana sem miklu skipta fyrir ungar fjölskyldur og velferð barna og ungmenna. Það er hafið yfir allan vafa að tilhögun fæðingarorlofsgreiðslna hefur skipt miklu fyrir framþróun kynjajafnréttis og orðið til þess að feður taka ríkari þátt í umönnun ungbarna en áður. Málaflokkurinn er því einkar mikilvægur þáttur velferðarkerfisins og aðgerðir stjórnvalda á þessum vettvangi lýsandi fyrir stefnu þeirra og áherslur í velferðar- og jafnréttismálum.

Fæðingarorlofssjóður er fjármagnaður með tryggingagjaldi, samanber lög um tryggingagjald, nr. 113/1990, með síðari breytingum. Tryggingagjaldið var lækkað um 0,5 prósentustig, úr 7,35% í 6,85% 1. júlí sl. í tengslum við kjarasamninga sem voru gerðir snemma á þessu ári og er frekari lækkun tryggingagjaldsins áformuð á næstu árum. Stjórnvöld áforma að auka hlutdeild Fæðingarorlofssjóðs í tryggingagjaldi þannig að ráðstöfunarfé sjóðsins aukist í samræmi við þann útgjaldaauka sem fyrirsjáanlegt er að verði við það að greiðslur úr sjóðnum verði með svipuðum hætti og þær voru árið 2009, en því markmiði er lýst yfir í þingsályktunartillögunni um fjármálaáætlunina. Má af þessu ráða að miklar breytingar séu í vændum varðandi tryggingagjald og ráðstöfun þess og líklegt, með tilliti til þess hvers eðlis þær breytingar eru, að útgjöld ríkissjóðs vegna fæðingarorlofs séu stórlega vanmetin.

Hámarksmánaðargreiðsla fæðingarorlofs árið 2008, áður en skerðingar vegna fjármálahrunsins komu til, voru 535.700 sem jafngildir í kringum 761.000 á núverandi verðlagi og þangað er stefnt samkvæmt yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar. Lækkun hámarksgreiðslna hefur orðið til þess að feður taka síður fæðingarorlof nú en á fyrri árum þegar greiðslur voru hærri. Því skal ekki dregið úr mikilvægi þess að hækka greiðslurnar en þar sem fæðingarorlof er til muna skemmra hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum ætti vitaskuld að vera markmið að lengja það til jafns við það sem þar gerist ef ætlunin væri að starfrækja hér norrænt velferðarkerfi. Útspil hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hefur yfirbragð þess að kosningar eru í nánd því að það er ekki að finna í ríkisfjármálaáætlun að gert sé ráð fyrir þeim útgjöldum sem hún hefur rætt í fjölmiðlum. Þingflokkur Vinstri grænna hefur ítrekað lagt fram þingmál um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla enda verður ekki við annað unað en að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, komi að boðlegum úrræðum fyrir barnafjölskyldur á því viðkvæma æviskeiði sem fellur milli kerfa í núverandi stöðu.

Barnabætur, fjárhæð sem greidd er vegna barna á framfæri framteljenda til skatts, eru afar mikilvægar fyrir framfærslu ungra fjölskyldna og til að tryggja að engin börn verði með öllu afskipt hvað efnaleg gæði varðar og fela einnig í sér viðurkenningu á því að ætla þurfi nokkurt fé til framfærslu barna og ungmenna. Barnabætur fela þannig í sér vörn gegn fátækt og eru meðal öflugustu tækja félagskerfisins til að stuðla að jöfnuði og tryggja börnum lágmarksafkomu þar sem þessar greiðslur verða oft til að lyfta barnafjölskyldum upp fyrir fátæktarmörk. Upphæð barnabóta hér á landi ræðst af tekjum foreldra, hjúskaparstöðu og barnafjölda en annars staðar á Norðurlöndum er algengast að hverju barni sé ætluð ákveðin upphæð án tillits til tekna framfærenda.

Tvær yfirlýsingar í fjármálaáætluninni marka stefnu stjórnvalda varðandi barnabætur á næstu fimm árum. Önnur felur í sér fyrirheit um endurskoðun barnabótakerfisins og einföldun þess í samræmi við tillögur í greinargerð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um tekjuskattslagningu einstaklinga en hin er yfirlýsing um að framlög ríkisins vegna barnabóta verði óbreytt að raunvirði á áætlunartímanum. Gangi þessi áform eftir er sýnilega að vænta mikilla breytinga á greiðslu barnabóta og kjörum barnafjölskyldna þar með.

Því er haldið fram í tillögunni að ríkisstjórnin hafi lagt áherslu á það á undanförnum árum að standa vörð um barnabætur og bæta kjör tekjulágra barnafjölskyldna. Við álagningu opinberra gjalda fyrir árið 2016 lækkuðu þó heildargreiðslur vegna barnabóta og þeim fjölskyldum sem öðlast barnabætur fækkaði um 7,4% frá fyrra ári. Þetta bendir ekki til annars en að þáttur barnabóta í fjárhag barnafjölskyldna fari minnkandi þegar á heildina er litið. Ríkisstjórnin hefur ekki gert grein fyrir hugmyndum sínum um tilhögun barnabóta í framtíðinni heldur aðeins vísað til skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um hugmyndir. Umfjöllun um nýja tilhögun barnabóta verður að sjálfsögðu að bíða þess að ríkisstjórnarflokkarnir sýni og skýri fyrirætlanir sínar í þessum efnum en umfjöllunin í tillögu að fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 og þróun mála upp á síðkastið gefur sterklega til kynna að þessi mikilvægi þáttur velferðarkerfisins geti verið í hættu í meðförum núverandi ríkisstjórnar.

Eins og vænta mátti hafði fjármálahrunið haustið 2008 óheillavænleg áhrif á opinbera fjárfestingu sem hefur verið á bilinu 2,5–3% af vergri landsframleiðslu frá 2009 en gjarnan er litið svo á að þetta hlutfall megi ekki vera lægra en 4% til að hafa við afskriftum og tryggja eðlilega uppbyggingu innviða samfélagsins.

Því miður gefur ríkisfjármálaáætlunin ekki fyrirheit um þann vöxt sem augljóslega þarf að verða á opinberri fjárfestingu eftir langt stöðnunar- og hnignunarskeið heldur einmitt hið gagnstæða. Gert er ráð fyrir því að árleg fjárfesting A-hluta ríkissjóðs verði um 1,3% af vergri landsframleiðslu á fyrri hluta tímabilsins og hækki aðeins í 1,5% á síðari hluta þess. Búist er við því að fjárfesting A-hluta sveitarfélaganna verði tæp 1% af vergri landsframleiðslu á tímabilinu.

Í fréttabréfi Sambands íslenskra sveitarfélaga, 3. tbl. 2016, sem fjallar um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga á árabilinu 2016–2019 er bent á að hið lága fjárfestingarstig sveitarfélaganna geti leitt til vandkvæða. Ástæðan er að fjárfestingarstigið er of lágt til að hafa við þörfinni og munu afleiðingarnar birtast landsmönnum í feysknum innviðum nærsamfélagsins. Ljóst er að stjórnvöld hafa knúið fram stranga aðhaldsstefnu í fjárfestingum sveitarfélaganna í því skyni að halda aftur af þenslu í hagkerfinu en á sama tíma er stuðlað að aukinni einkaneyslu með skattkerfisbreytingum. Eins og gefur að skilja kemur þessi hagstjórnaraðferð illa við innviði sveitarfélaganna og þar með sameiginlega hagsmuni allra landsmanna. Af þeim sökum mótmælir 2. minni hluti henni sem skaðvaldi í félagslegu tilliti.

Þess er og að minnast, þegar fjallað er um fjárhag sveitarfélaganna og ófullnægjandi fjárfestingaráform þeirra, að sveitarfélögin voru skylduð til að gefa eftir tekjur vegna séreignarsparnaðar sem efnt var til í tengslum við niðurfellingu verðtryggðra fasteignalána, þ.e. leiðréttingarinnar svonefndu. Hefur þessi tekjumissir að sjálfsögðu veikt fjárhagsgrunn sveitarfélaga bæði í bráð og lengd og er meðal dæma um tilfærslu fjármuna frá samneyslu til einkaneyslu á yfirstandandi kjörtímabili. Nýlega fram komið frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð felur það í sér að skattafsláttur vegna séreignarsparnaðar verður framlengdur. Horfur eru því á enn frekari tekjumissi sveitarfélaga af þessum sökum. Þörf er á ráðstöfun til að bæta sveitarfélögunum tekjutapið eigi þau að geta rækt hlutverk sitt og skyldur.

Áform um opinbera fjárfestingu í innviðum eru rýr og langt frá því nægjanleg. Hlýtur þetta óhjákvæmilega að koma víða niður á samfélaginu. Látið skal við það sitja að benda á samgöngumál og ferðaþjónustu sem dæmi um úrræðaleysi og vandræðagang ríkisstjórnarinnar. Eins og kunnugt er hefur ferðamönnum fjölgað mjög hérlendis á síðustu árum og reynir þetta mjög á tiltekna innviði sem ekki eru undir það búnir að taka við öllu því fólki sem vill heimsækja landið. Þetta eru kallaðir vaxtarverkir í áætlunum ríkisstjórnarinnar og eru álitnir geta verið háskalegir en ekkert bólar þó á raunhæfum áætlunum til að bregðast við ástandinu. Isavia, rekstraraðili flugvalla og flugleiðsögu, hefur gert viðamiklar áætlanir um uppbyggingu samgöngumannvirkja á Keflavíkurflugvelli í því skyni að bregðast við aukinni umferð um völlinn og standa þar yfir miklar framkvæmdir nú þegar. Með sama hætti hefði þurft að bregðast við þörf fyrir endurnýjun og uppbyggingu samgöngumannvirkja á landsbyggðinni, enda vitað mál að ferðafólkið staðnæmist ekki á Keflavíkurflugvelli heldur leggur leið sína um landið. Uppbygging samgangna á landsbyggðinni er hins vegar látin mæta afgangi í áætlun stjórnvalda og átelur 2. minni hluti það harðlega enda lýsir þessi vanræksla skeytingarleysi um hag samfélagsins sem mun hafa miklu víðtækari og alvarlegri afleiðingar en þeir vaxtarverkir sem fjallað er um í fjármálaáætluninni. Framlög til Vegagerðarinnar, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, eru langtum lægri nú en meðaltal fyrri ára og einungis er áformuð lítilvæg hækkun fram til ársins 2018. Hér er í raun verið að boða viðvarandi vanrækslu þessara mikilvægu innviða um langt árabil sem hlýtur að vera öllum landsmönnum, en ekki síst landsbyggðarfólki, ærið áhyggjuefni.

Í fjárlögum fyrir árið 2016 eru 14.000 milljónir ætlaðar til umhverfismála og skiptist heildarupphæðin þannig að 22% renna til náttúruverndar, skógræktar og landgræðslu, 22% til rannsókna og vöktunar á náttúru Íslands, 24% fara í meðhöndlun úrgangs, 9% í varnir gegn náttúruvá og 22% ganga til stjórnsýslu umhverfismála.

Breytingin milli áranna 2017 og 2021 nemur aðeins 1,2% og er það furðanlega lítil hækkun með tilliti til þess hversu mikilvægur málaflokkurinn er og enn fremur þess að áætlaður vöxtur vergrar landsframleiðslu á tímabilinu er um 14,5%. Ríkisstjórnin hefur því sýnilega ekki áform um að sinna umhverfismálum af myndugleik og í samræmi við auknar skuldbindingar sem alþjóðlegar ráðstafanir í umhverfis- og loftslagsmálum hafa leitt af sér. Minnt er á sóknaráætlun í loftslagsmálum sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið annast og gildir til ársins 2018. Áætlunin gegnir m.a. hlutverki við að rækja alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum sem samþykktar voru á 21. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í lok ársins 2015 en hið alþjóðlega samkomulag sem þar tókst um að hemja og stöðva þær athafnir manna sem stuðla að hlýnun loftslags á jörðinni tekur gildi árið 2020. Telja má fullvíst að þá verði þörf aukins atbeina hins opinbera í loftslagsmálum en ekki er neinar upplýsingar að hafa í ríkisfjármálaáætluninni um áform ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Áætlanir um heildarfjárveitingu til málaflokksins lýsa samdrætti og ljóst er að auknum alþjóðlegum skuldbindingum í loftslagsmálum verður ekki sinnt með viðunandi hætti nema það verði á kostnað annarra þátta sem síst mega við því. Almennt er það áhyggjuefni að umræða um loftslagsmál virðist algjörlega einangruð við umhverfismálaflokkinn þegar áform um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda ættu að sjást í mun fleiri köflum fjármálaáætlunarinnar. Þannig væri um að ræða leiðarstef í samgöngumálum og atvinnumálum, auk þess sem fjalla þyrfti með afgerandi hætti um græna skatta og grænkun hagkerfisins í öllum greinum.

Áform um útgjöld til orku- og eldsneytismála og reifun á þeim ber enn fremur með sér að áætlanir stjórnvalda á þessu sviði eru veigalitlar. Útgjaldaauki til orku- og eldsneytismála er aðeins ætlaður 4%, þ.e. um 10% undir áætluðum vexti vergrar landsframleiðslu á þessu árabili. Samkvæmt því sem fram kemur í áætluninni er stefnt að því að nýta sem fyrst olíu og gas sem kynni að finnast í efnahagslögsögu Íslands. Ekki er greint frá því hvernig sú nýting ætti að falla að markmiðum um samdrátt í útblæstri koltvísýrings eða öðrum markmiðum í umhverfis- og loftslagsmálum en ljóst er að fjármunum verður varið í þessu skyni. Bent skal á að heillavænlegra væri að nýta það fé til að minnka notkun jarðefnaeldsneytis hér á landi og stuðla að enn frekari notkun endurnýjanlegra orkugjafa, t.d. með því að þeir verði nýttir í almenningssamgöngum.

Frú forseti. Ég hef látið ógert að tala um m.a. þróunarsamvinnuna og samstarf um öryggis- og varnarmál sem þó var gerð grein fyrir við 1. umr. málsins. Því er haldið fram í þingsályktunartillögunni um fjármálaáætlun fyrir næstu fimm ár að stefnan sem þar er útlistuð sé velferðarstefna en ég tel raunina allt aðra. Mér finnst hún akkúrat ekki fela í sér stuðning við helstu þætti velferðarkerfisins. Erindi hennar er hið gagnstæða, þ.e. að draga úr jöfnuði, hamla uppbyggingu innviða og sneiða af félagslega kerfinu. Slík stefna er ekki velferðarstefna heldur er hér komin dæmigerð og vel þekkt hægri stefna sem snýst ekki um velferð almennings eða samtryggingu heldur fer fram hjá henni inn á vaxtarsvæði sérhyglinnar þar sem hver er sjálfum sér næstur.

Bent hefur verið á mörg dæmi um það hér að framan, í umfjöllun um einstaka þætti tillögunnar, hversu fjarri hún er velferðarstefnu og er sú umfjöllun þó alls ekki tæmandi. Hið augljósa blasir við, stefnt er í átt frá velferðarkerfinu í stað þess að styrkja það og heildarhagsmunum samfélagsins er stefnt í tvísýnu með áformum um vanrækslu á viðhaldi og uppbyggingu innviða. Nægir þar að nefna, eins og hv. framsögumaður meiri hlutans fór yfir, að samgönguáætlun og ríkisfjármálaáætlun tala ekki saman svo munar mörgum milljörðum. Stefna í loftslagsmálum og umhverfismálum virðist afar laus í reipunum og metnaðarlaus og fjarri því að vera í samræmi við mikilvægi þessara málaflokka eða þær skuldbindingar sem gerðar hafa verið í umhverfis- og loftslagsmálum. Af þessum sökum getur 2. minni hluti ekki fallist á þessar þingsályktunartillögur um fjármálaáætlun og fjármálastefnu fyrir næstkomandi fimm ár.