145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[19:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég kem upp í lok umræðunnar og ætla ekki að lengja hana mikið. Hún hefur um margt verið alveg prýðileg. Hugmyndin er að hún snúist fyrst og fremst um stóru línurnar og hvaða markmið við setjum okkur varðandi skuldir og afkomu og hvernig við deilum þessu í stóra samhenginu. Ég verð að viðurkenna að mér finnst nokkuð bratt af hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar að reyna að gera lítið úr því sem hefur verið gert á undanförnum árum þegar kemur að heilbrigðismálum og því sem lagt er upp með í þessari áætlun. Einnig finnst mér skrýtið þegar menn tala um afkomu heimilanna í landinu að þeir taki einn bótaflokk út og ræði hann sérstaklega eins og hann sé upphaf og endir á öllu. Að vísu er mikil mótsögn í því eins og kemur fram hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna að tala um að þeir vilji sjá tekjujöfnun en eru síðan á móti því að lagt sé upp með það að barnabætur séu fyrst og fremst fyrir tekjulágar fjölskyldur. Það er einfaldlega mótsögn í því. Ef ég skil hv. þingmenn rétt vilja þeir hafa þær ótekjutengdar og þegar þannig liggur á hv. þingmönnum gagnrýna þeir þá hluti sem eru ótekjutengdir og vísa ég þá t.d. í leiðréttinguna svokölluðu.

Hins vegar er áhugavert að sjá hvað það er mikil áhersla á skattahækkanir hjá hv. þingmönnum, sérstaklega Samfylkingarinnar og Vinstri grænna þó að það hafi líka verið aðeins hjá hv. þingmönnum Bjartrar framtíðar. Þar er af ýmsu að taka, það eru skattar á ferðaþjónustuna, það á að hækka tekjuskatt almennings, það á að koma á eignarskatti sem fór svo illa með eldra fólk sem var í skuldlitlu eða skuldlausu húsnæði, hækka svokallaðan auðlegðarskatt og ýmislegt annað kom á daginn þegar maður hlustaði á hv. þingmenn.

Mér leiðist að hlusta á þá möntru að núverandi ríkisstjórnarmeirihluti hafi ekki lagt áherslu á heilbrigðismálin. Það var þannig, og allir geta flett því upp sem vilja, að á síðasta kjörtímabili bitnuðu uppsagnirnar hlutfallslega og sömuleiðis í upphæðum fyrst og fremst í heilbrigðisstéttunum og á Landspítalanum. Önnur opinber þjónusta var varin. Það vita allir að það þurfti að spara á þessum tíma, enginn heldur því fram að það hafi verið auðvelt, engan veginn, og enginn heldur því fram að það hafi ekki verið nauðsynlegt, en það sem er óskiljanlegt er af hverju menn lögðu svona mikla áherslu á að spara í heilbrigðismálunum en bættu í t.d. í utanríkismálunum og umhverfismálunum, þá sérstaklega eftirlitsstofnununum. Maður hefði ætlað að þær stofnanir væru ekki með minna aðhaldsstig eða sparnaðarstig en heilbrigðismálin en því var ólíkt farið. Menn geta kannað þetta ef þeir vilja því að ríkisreikningur fer nákvæmlega yfir þessa hluti.

Þessari stefnu hefur verið breytt. Það er útúrsnúningur, eins og kom fram hjá einum hv. þingmanni Samfylkingarinnar, að vísa til vergrar landsframleiðslu hvað þetta varðar. Hlutfallið í öllum málaflokkum er alla jafna mun hærra þegar verg landsframleiðsla er lág, en þegar hún eykst, sérstaklega ef hún eykst mikið, er hlutfallið lægra þó að upphæðirnar séu miklu hærri.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að leiðrétta meira það sem kom fram hjá hv. stjórnarandstöðu. Ég ætla bara að segja, eins og ég sagði í upphafi míns máls í dag, að ég vonast til þess að þetta sé skref í þá átt að við ræðum af meiri ábyrgð um ríkisfjármálin, að við lítum til lengri tíma en við höfum gert áður og séum að skapa þannig stjórnmálamenningu að gerð verði sú krafa til allra stjórnmálamanna, alveg sama í hvaða flokki þeir eru, á vettvangi Alþingis, ríkisstjórnar og á sveitarstjórnarstiginu, að þeir sýni ábyrgð bæði í orði og í verki þegar kemur að opinberum fjármálum. Ef við gerum það erum við búin að stíga risastórt skref í þá átt að gera lífskjör almennings betri hér á landi. Ekkert þjóðfélag sem við viljum bera okkur saman við sem hefur náð þeim árangri og lífskjörum sem þau þjóðfélög hafa náð hefur náð því án þess að viðhafa öguð vinnubrögð og langtímahugsun í opinberum fjármálum.