145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

ákall um uppbyggingu heilbrigðisþjónustu.

[10:33]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ákall um 86 þúsund Íslendinga um að heilbrigðiskerfið verði endurreist og að 11% af vergri landsframleiðslu verði varið til heilbrigðisþjónustu er einstakt. Stjórnmálamenn verða að svara því hvernig skuli ná því markmiði og forgangsraða. Hæstv. heilbrigðisráðherra þekkir það jafn vel og ég að mikil þörf er fyrir uppbyggingu í heilbrigðisþjónustunni um allt land. Slæm staða t.d. á Landspítalanum er með þeim hætti að ástæða er til að hafa áhyggjur af öryggi sjúklinga ef ekki verður bætt úr á næstu árum. Í því ljósi má benda á að ef krafa fólksins gengi eftir um 11% af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála fengi Landspítalinn um 18 milljarða aukningu á ári. Það er gott langtímamarkmið en ekki raunhæft að gera ráð fyrir slíkri hækkun í einu skrefi, en þangað ætti Ísland að stefna.

Þegar fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar var lögð fram 29. apríl sl. var krafa þjóðarinnar um uppbyggingu í heilbrigðisþjónustu öllum orðin ljós. Almenningur hefur fengið nóg og krefst þess að neikvæðri þróun verði snúið við. Áætlun ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum til næstu fimm ára tekur ekki tillit til þessarar kröfu almennings.

Því spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra: Var tekin ákvörðun um það í ríkisstjórninni að hlusta ekki á þessa kröfu fólksins?