145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

breytingar á fæðingarorlofi.

[10:47]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Nú hefur frumvarpinu um breytingar á fæðingarorlofi ekki enn verið dreift en ég hjó eftir því þegar ráðherra fjallaði um málið í fjölmiðlum að mér fannst ekki nægilega skýrt í orðræðu hennar hvernig ætti að fjármagna þessar breytingar. Því langaði mig að spyrja hvernig eigi nákvæmlega að fjármagna þessar breytingar. Hvernig ætti þá að bregðast við t.d. ef það yrði aukning eða fjölgun barna? Ein rökin fyrir því að það sé svigrúm til að fara í þessar aðgerðir eru hversu barnsfæðingum hefur fækkað á landinu undanfarin ár.

Mig langar til að spyrja hvort búið sé að reikna nákvæmlega út hve mikið á þá að hækka t.d. tryggingagjaldið, ef slíkt yrði að við yrðum með barnalán á Íslandi.

Síðan langaði mig líka að spyrja ráðherrann hvenær eigi að leggja fram þetta frumvarp, hvort það sé tilbúið, og hvort ráðherrann geri ráð fyrir að það verði klárað á þessu þingi.