145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

breytingar á fæðingarorlofi.

[10:52]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegur forseti. Við hv. þingmaður verðum þá að vera ósammála um þetta. Ég vil styðja við barnafjölskyldur á Íslandi, ég tel nauðsynlegt að endurreisa fæðingarorlofskerfið aftur. Ég tel líka, eins og hefur alveg komið fram og ég hef upplýst hv. þingmann um og aðra þingmenn, að það sé svigrúm til að bæta verulega í hvað snýr að lífeyrisþegum. Það er líka tryggingagjaldið sem fjármagnar stóran hluta af þeim útgjöldum.

Það hefur verið verulegur afgangur af ríkisfjármálunum. Ég held að hann verði mjög mikill samkvæmt þeim tölum sem við erum með á borðinu varðandi þetta ár og í mínum huga var alltaf ljóst að við mundum fara í að leiðrétta skuldir heimilanna, koma efnahagslífinu af stað og að við mundum síðan nýta fjármuni til að bæta í velferðarkerfið. Það er það sem mín frumvörp gera og ég vænti þess og vona svo sannarlega að þingmaðurinn endurskoði afstöðu sína. (Gripið fram í.)