145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

húsnæðiskaup og vaxtastig.

[10:53]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Sem viðbrögð við því að húsnæðisverð og vextir á fasteignalánum eru háir á Íslandi hefur fjármálaráðherra kynnt tvö frumvörp, annað er bann við verðtryggingu, eða það á að banna sumum að taka verðtryggð lán og helst þeim sem þurfa í rauninni ekki að taka þannig lán, þannig að ég veit ekki alveg til hvers það bann er, svo er það frumvarpið um fyrstu fasteign sem ku eiga að hjálpa ungu fólki að kaupa fyrstu fasteign eins og nafnið ber með sér, þótt ég sjái reyndar ekki fram á að ungt fólk, sem flest er í námi á því tímabili sem um ræðir, nái að safna sér í digra sjóði í gegnum séreignarsparnað á sama tíma. En það getur verið að þetta komi sér vel fyrir einhverja.

Það vekur eftirtekt að með aðgerðum sínum núna og með öðrum ómarkvissum aðgerðum á húsnæðismarkaði, eins og skuldaniðurfellingunni, er fjármálaráðherra enn og aftur að fara með skottulækningar á húsnæðismarkaðinn þegar rót vandans er augljós. Rót vandans er sú að hér eru of háir vextir, áhrif verðtryggingar verða of mikil vegna þess að efnahagsstjórn stjórnvalda hefur í áranna rás verið taumlaus og úti um allt, fjármálakerfið ver sig gegn þessari óstjórn með því að hafa vexti háa og svona bregst hæstv. fjármálaráðherra við, ekki með því að taka hér upp stöðugri gjaldmiðil, ekki með því að sýna aga í hagstjórn og bjóða ekki 80 milljarða til sumra í skiptum fyrir að komast til valda. Nei, aðferðin er forræðishyggja og fáránleg ómarkviss ríkisafskipti á fasteignamarkaði þar sem verð mun bara halda áfram að hækka og vandinn mun vinda upp á sig.

Ég vil spyrja hvort ráðherra sé virkilega ekki með neitt plan í þeim efnum. Sér hann ekki fyrir sér að Íslandi geti verið þannig land eins og löndin í kringum okkur að hér bjóðist 2% óverðtryggðir húsnæðisvextir? Hefur hann ekki trú á því að Ísland komist einhvern tímann í það ástand að fjármálastofnanir í stöðugu umhverfi muni keppast við að lána fólki á þeim vöxtum? Stjórnmálamaður sem hefur ekki þá sýn, hefur ekki trú á að þetta sé hægt er fastur í plástrum og ómarkvissum aðgerðum (Forseti hringir.) til þess að gera lífið bærilegt fyrir fólkið.