145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

húsnæðiskaup og vaxtastig.

[10:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er sett á dagskrá mjög stórt mál sem við reyndar ætlum að ræða frekar í dag undir sérstökum þingmálum, en það er sjálfsagt að reyna að bregðast við í örstuttu máli.

Það er rangt að hér sé fyrst og fremst verið að bregðast við háum vöxtum og verðtryggingu með þeim frumvörpum sem eru lögð fyrir þingið í dag og verða rædd í dag. Hér er verið að bregðast við þeim grundvallarvanda sem er erfitt að horfa upp á aðgerðarlaust, að ungt fólk á erfitt með að safna fyrir höfuðstól til þess að eiga fyrir fyrstu útborgun í íbúð. Það hefur svo sem aldrei verið auðvelt að safna höfuðstól til íbúðakaupa á Íslandi, en hér er um að ræða aðgerð sem veitir skattafslátt til þess að gera það þó sýnu léttara.

Varðandi það hvernig við náum niður vöxtunum og tryggjum stöðugra verðlag þá er það auðvitað miklu stærra mál en að það tengist bara þessum þingmálum. Ég verð að segja að á þessu kjörtímabili hef ég þurft að standa vörð um stefnu stjórnvalda varðandi niðurstöðu í kjarasamningum og menn hafa lamið á fjármálaráðherranum fyrir það að ganga ekki samstundis að kröfum um 50% launahækkanir úti um allt samfélag. Það er sama hver átti í hlut. Það þurfti að stórhækka laun láglaunafólksins, miðtekjufólksins og hæstu laun. Svo rétt áðan var formaður Samfylkingarinnar að kvarta undan því að það væri ekki meiri útgjaldaauki í langtímaáætlunum í ríkisfjármálum. Menn vilja dæla út peningum úr ríkissjóði og stórhækka launin og koma svo hingað í pontu og spyrja: Hvernig stendur á því að vextir á Íslandi eru jafn háir og raun ber vitni? Og hvernig stendur á þessari verðtryggingu? Hvernig stendur á því að verðbólgan er viðvarandi vandamál? Gæti það verið vegna þess að hér hefur engin samstaða myndast um að hafa alvöruaga í opinberum fjármálum í anda nýju laganna sem við höfum nú sett um opinber fjármál, fylgja langtímaáætlunum, vera ekki með botnlausar kröfur um að dæla peningum út úr ríkissjóði? Svo hefur ekki heldur tekist, því miður, að mynda langtímagrundvöll (Forseti hringir.) milli stjórnvalda og vinnumarkaðar um útreikninga á forsendum fyrir raunverulegu svigrúmi til launahækkana. Þetta er svarið (Forseti hringir.) við því hvernig við lækkum (Forseti hringir.) vexti og komumst undan verðtryggingu á Íslandi.