145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

húsnæðiskaup og vaxtastig.

[10:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir mig ekki hafa nokkur svör og vilja kenna öðrum um. En það var ég ekki að gera. Ég benti á leiðir sem hafa reynst öðrum löndum afskaplega vel og verið þar farsælar og eru t.d. grundvöllur núna undir því samstarfi sem við höfum nefnt SALEK í dag. Staðreyndin er nefnilega sú að það getur enginn einn fjármálaráðherra leyst þetta, engin ein ríkisstjórn. Það getur vinnumarkaðurinn heldur ekki einn og óstuddur og það getur Seðlabankinn ekki heldur. Þetta er spurning um að skapa traust á milli lykilaðila í samfélaginu og samstarfsvilja með sameiginlega sýn. Það er það sem skortir. Þetta er bara þannig.

Þessi leikur að reyna að benda á að það sé þessi maður sem ber ábyrgð á verðtryggingunni og það sé þessi þarna sem ber ábyrgð á háum vöxtum — þetta er bara þvættingur allt saman. Þessi umræða er þvættingur. (Gripið fram í.) Við Íslendingar verðum að horfast í augu við það að hér gilda sömu lögmál og annars staðar. (Gripið fram í.) Ef menn vilja (Forseti hringir.) hér í þinginu hafa uppi kröfur um stóraukin ríkisútgjöld á hverju ári og ef (Forseti hringir.) launþegahreyfingin vill stórauka laun á hverju ári (Forseti hringir.) þá verður afleiðingin sú sem var verið að lýsa. Ég segi: (Forseti hringir.) Það er ekki svar heldur sem hv. þingmaður býður (Forseti hringir.) upp á, að segja að við tökum bara upp annan gjaldmiðil.