145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

upphæð barnabóta.

[11:00]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Í ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar segir á bls. 200–201, með leyfi forseta:

„Þá þarf að breyta því fyrirkomulagi að barnabætur ná í einhverjum tilvikum of langt upp tekjuskalann sem vinnur gegn því meginmarkmiði að vera eingöngu stuðningur við tekjulægstu fjölskyldurnar.“

Of langt upp tekjuskalann, hæstv. forseti. Þetta eru skilaboð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til millitekjufjölskyldna með börn. (Gripið fram í.) Tökum dæmi af íslenskri millitekjufjölskyldu með eina milljón í heildartekjur á mánuði. Þau eiga fjögur börn alveg eins og ég og hæstv. fjármálaráðherra, það er nokkuð algengt á Íslandi. (Fjmrh.: Þó ekki saman.) Þau eru eins árs, þriggja ára, 13 ára og 15 ára. Íslensku hjónin fá 14 þús. kr. á mánuði í barnabætur. 14 þús. kr. Sambærileg fjölskylda í Noregi fær miklu hærra, 54 þús. kr. á mánuði. En ef við förum yfir til Svíþjóðar og Danmerkur, hvað fá sambærilegar fjölskyldur þar á mánuði í barnabætur? 81 þús. kr. í viðbót við sínar ráðstöfunartekjur, hæstv. forseti. Munurinn er rosalegur á milli Íslands, Svíþjóðar og Danmerkur. Íslenskar barnafjölskyldur í millitekjuhópi eru með 67 þús. kr. minna í ráðstöfunartekjur á mánuði en sambærilegar fjölskyldur þar. Á ári eru þetta rúmlega 800 þús. kr. Ég bið því hæstv. forsætisráðherra að útskýra fyrir mér og barnafjölskyldum af hverju hann vill auka skattheimtu gagnvart barnafjölskyldum í millitekjuhópi.