145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[11:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fjármálaráðherra sagði sjálfur að þetta kerfi kæmi betur út fyrir tekjuhærra ungt fólk en hið tekjuminna. Ég spyr fjármálaráðherrann: Er ekki a.m.k. hægt að gefa færi á því að tekjulægra fólk geti, þótt á lengri tíma sé, unnið sér inn sömu krónutölu í skattafslætti og hinir tekjuhærri gera, þá á skemmri tíma þannig að þetta sé a.m.k. hlutlaust milli þeirra sem eru betur stæðir og hinna?

Síðan vil ég spyrja fjármálaráðherra um það að skilja sérstaklega eftir þá sem hafa átt íbúð áður. Ég spyr fjármálaráðherra um þann hóp sem ekki fékk leiðréttinguna og fær þá ekki þennan stuðning, þ.e. þá sem misstu íbúðirnar sínar, ungt fólk sem keypti sína fyrstu íbúð í hruninu, var lamið með þremur sleggjum og missti íbúðirnar sínar. Á það fólk þá ekki neinn stuðning að fá til að komast aftur inn á húsnæðismarkað? Eigum við að undanskilja það sérstaklega? (Forseti hringir.) Er ekki með einhverjum hætti hægt að nálgast þennan hóp sem að mörgu leyti situr einn eftir, þá sem misstu húsnæðið í hruninu?