145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[11:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst um tekjulægra fólkið: Það má segja að yfir tíu ára tímabil sé svo sem töluvert mikill vinnuhvati í kerfinu. Það er spurt hvort rétt væri að mismuna í raun og veru í þágu þeirra sem eru með lægri tekjurnar. Við höfum ákveðið að fara þá leið að setja þak á það hversu mikið má taka út. Það er svo sem ekki hafið yfir gagnrýni en þetta er sú hugmyndafræði sem hér er byggt á, að ekki sé ástæða til að ganga lengra en upp að 500.000 kr. en þá sé dregið strik í sandinn fyrir hvern einstakling.

Varðandi þann hóp sem er síðan sérstaklega spurt um vek ég athygli á því að við erum að framlengja úrræðin um tvö ár þannig að þá a.m.k. til ársins 2019 geta viðkomandi nýtt sér öll gildandi úrræði. Þegar að því kemur verður álitamál hvort við eigum enn að framlengja úrræðið (Forseti hringir.) ef til staðar eru hópar eins og sá sem hér er nefndur sem ekki naut góðs af leiðréttingunni, 110%-leiðinni eða öðru og hefur ekki reynst unnt að fjárfesta í eigin eign eða safna (Forseti hringir.) fyrir höfuðstól. Það er spurning sem við verðum að svara fyrir 2019.