145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[11:42]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að halda áfram með þann þráð sem hv. þm. Helgi Hjörvar tók hér upp hvað varðar tekjudreifinguna. Það er vissulega rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að þak er sett á skattafsláttinn, sem er auðvitað bara framlag hins opinbera til viðkomandi einstaklings. En hefur það verið greint hvernig þetta mundi dreifast, þetta framlag hins opinbera, á milli ólíkra tekjuhópa, ólíkra tekjutíunda? Er ekki eðlilegt að við fáum þá greiningu áður en við afgreiðum þetta mál þannig að hægt sé að átta sig á því hvað þetta þýðir fyrir ólíkar tekjutíundir í stuðningi hins opinbera? Ég tek undir með hv. þm. Helga Hjörvar. Það væri eðlilegra að mínu viti að horfa á þetta, sem er auðvitað stuðningur við ungt fólk, sem er jákvætt í sjálfu sér, til að kaupa sér sína fyrstu íbúð, út frá einhverri krónutölu í sömu ætt og persónuafslátturinn þannig að við séum að jafna þessa stöðu. Liggur sú greining fyrir? Er ekki eðlilegt að fá hana fram?

Hitt sem mig langar að spyrja um er framtíðarsýnin á lífeyrissjóðina. (Forseti hringir.) Nú hefur verið mjög hvatt til séreignarsparnaðar til að styrkja stöðu lífeyrissjóðanna. (Forseti hringir.) Er búið að greina áhrifin af þessari aðgerð á stöðu lífeyrissjóðanna?