145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[11:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Meðallaun á Íslandi liggja í kringum 550 þús. kr., einhvers staðar á því bilinu, síðast þegar ég gáði. Meðallaun hjóna samkvæmt því eru þá einhvers staðar í kringum 1,1 milljón ef þau eru bæði meðaltekjufólk. Hámarkið sem tekjur geta farið upp í fyrir hjón samkvæmt þessu frumvarpi eru 1.380 þús. kr. Við erum því með viðmið sem miðar við tekjur sem eru rétt rúmlega meðaltekjur og þar fyrir neðan. Það er viðmiðið. Það er ekki gengið lengra en það. Þau sjónarmið sem rakin eru um það hvort eigi síðan að gera enn meira fyrir þá sem eru fyrir neðan eru svo sem ágæt, en við leggjum það ekki til hér.

Varðandi lífeyrissjóðina er aðeins fjallað um það í frumvarpinu og greinargerðinni og sérstaklega vegna þess að hér horfum við til þeirra sem eru að fara í fyrstu (Forseti hringir.) íbúðarkaup, að lífeyrisréttindi þeirra muni verða góð, (Forseti hringir.) alveg hreint prýðileg, haldi þeir að öðru leyti (Forseti hringir.) áfram að greiða inn í séreignarsparnaðarkerfið þrátt fyrir þessi tíu ár.