145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[11:47]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að fram séu komin einhver frumvörp fyrir ungt fólk. Björt framtíð hefur verið jákvæð gagnvart þeim leiðum að tengja það sparnaði. Sá sem hér stendur er nógu hundgamall til að hafa tekið þátt og verið skyldaður í skyldusparnaðinn svokallaða og rámar í talsvert partí þegar hann varð 26 ára og sparimerkin voru greidd út. Obbinn af þeim peningum skilaði sér í fyrstu íbúðina þannig að það er jákvætt.

Nú eru okkur að berast upplýsingar um að séreignarsparnaðarleiðin í stóru leiðréttingunni eins og hún var kölluð skilar sér ekki, þ.e. það er ekki verið að nýta sér nema kannski helming af því sem gert var ráð fyrir. Munurinn á þessari leið er að hún er valkvæð en skyldusparnaðarleiðin var skylda þannig að meira að segja vitleysingur eins og ég neyddist til að spara.

Hefur verið gerð grein gagnvart þessari leið, þ.e. hver þátttakan er (Forseti hringir.) í séreignarsparnaðarleiðinni sem hefur verið í boði? Og hvað er reiknað með að hún verði hér?