145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[11:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýra framsögu og áhugavert mál. Ég velti fyrir mér mögulegum áhrifum á vaxtastig, eða sem sé þeim áhrifum að bankarnir eða lánveitendur bregðist við með því að reyna einhvern veginn að taka þetta úrræði til sín. Eins og stundum er sagt um vaxtabætur, að þær endi bara hjá bankanum í formi hærri vaxta. Ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi einhverjar áhyggjur af því eða hvort það hafi verið skoðað sérstaklega, hættuna á því, þá er ég auðvitað að tala um ofurtryggðu lánin sérstaklega þar sem ég geri ráð fyrir að greiðslubyrðin, og það kemur hér fram, lækki talsvert í byrjun eða geti lækkað í byrjun tímabilsins. Er einhver hætta á að þetta endi hreinlega hjá bönkunum í staðinn fyrir að nýtast þeim sem nýta úrræðið?