145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[11:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á endanum ef maður er að reyna að horfa inn í framtíðina, hvað geti komið upp á og hvernig muni spilast úr því ræðst af svo mörgum breytum að erfitt er að gefa eitt skýrt svar. Það er hins vegar alveg ljóst þegar um óverðtryggð lán er að ræða að verði verðbólguskot sem mögulega varir í tvö, þrjú ár, þá eru allar líkur á því að það muni mjög snemma rata inn í breytilegu vexti lánanna, en óverðtryggð lán hafa ekki fengist með föstum vöxtum mjög langt fram í tímann, kannski þrjú, fimm, sjö ár. Sé komið að því að endurskoða vexti mun þetta rata mjög hratt inn í vexti slíkra lána og gera greiðslubyrði þeirra mun þyngri.

Í Bandaríkjunum á sínum tíma fóru vextir á slíkum lánum upp í 18,5%, það þurfti sem sagt að borga til baka 18% af höfuðstólnum á næstu 12 mánuðum, en á Íslandi fóru slíkir vextir einu sinni upp í 30%. (Forseti hringir.) Þó var verðbólgan mun hærri en það. Þá þurftu menn sem sagt að greiða til baka einn þriðja lánsins á næstu 12 mánuðum. Það eru aðstæður sem menn hljóta að þurfa að varast. Það verður áfram (Forseti hringir.) verkefni fjármálafyrirtækjanna að kynna skilmálana, áhættuna, sem felst í hverjum lánakosti fyrir sig.