145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[11:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt þetta sem ég hef svolitlar áhyggjur af, einmitt eins og hæstv. ráðherra svaraði ágætlega, en hann fer líka beinustu leið inn í næstu spurningu mína sem varðar upplýsingaskylduna. Nú hef ég haft það að gamni mínu að ráðleggja vinum svona eftir minni takmörkuðu færni í þessum efnum þegar kemur að húsnæðislánum, ekki vegna þess að ég sé sérfræðingur í þeim heldur vegna þess að ég skil hugtökin og í ljós kemur að það er þó nokkur þekking miðað við það sem gengur og gerist þegar fólk tekur þessi lán því miður. Þar er gríðarlega stór vandi að mínu mati hversu illa fólk þekkir hreinlega orðin sem eru notuð við þessar lántökur, þar af leiðandi afleiðingar gjörða sinna. Það veit ekki hvað það á að taka með inn í myndina til að meta hvers konar lán hentar því, hvort það á að vera jafngreiðslulán, óverðtryggt lán eða verðtryggt eða hvað. Jafnvel þótt við værum hlynnt þessu úrræði, sem ég er enn sem komið er, þá hef ég samt sem áður áhyggjur af því að þetta flæki aðeins upplýsingaskylduna. Og ég velti fyrir mér, sérstaklega með tilliti til reglna um greiðslumat, hvort það hafi verið skoðað og hvort ekki þurfi að spýta í lófana þegar kemur að upplýsingaskyldu lánveitenda.