145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[11:58]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um þetta frumvarp. Ég held að við deilum ekki um mikilvægi þess að grípa til aðgerða sem nýtast fyrstu íbúðar kaupendum við þær aðstæður sem nú eru á fasteignamarkaði, en það skiptir auðvitað máli hvernig það er gert, að það sé gert með sanngjörnum hætti, að það sé eins mikið jafnræði og mögulegt er í slíkum aðgerðum og að það hafi jákvæð áhrif á fasteignamarkað. Við höfum nefnilega dæmi um annað. Við getum tekið dæmi af 90% lánunum og þeirri miklu sprengingu sem þá varð á íbúðalánamarkaði engum til góðs og svo hinu þegar komið var á kerfi viðbótarlána 1999 sem voru tengd tekjum og eignastöðu og nýttust fyrstu íbúðar kaupendum ágætlega vel þannig að fjórum árum síðar var um þriðjungur nýrra lánveitinga Íbúðalánasjóðs með viðbótarláni upp í 90% sem var sérstaklega ætlað þessum tiltekna hópi. Sú breyting hafði ekki neikvæð áhrif á fasteignamarkaðinn.

Það er því til margs að líta í þessu efni og líka til félagslegs réttlætis með skattafslætti eða annarri fyrirgreiðslu sem veitt er. Það fyrsta sem maður rekur auðvitað augun í í þessari aðgerð er sú staðreynd að hér er verið að bjóða fólki að nýta eigin sparnað með skattafslætti til þess að lækka skuldir. Það er með öðrum orðum verið að bjóða fólki að nýta sína eigin peninga og stuðningur ríkisins verður þeim mun meiri sem fólk á meira af þessum peningum. Fullnýtt verður þakið ekki fyrr en við 1.400 þús. kr. og þar með er sú hætta fyrir hendi eins og sérfræðingar hafa bent á í greiningu á þessum tillögum að breytingin verði til þess að spenna upp fasteignamarkaðinn. Það fólk sem nú þegar hefur alveg næga peninga til að kaupa sér sína fyrstu íbúð vegna þess að það er með 1.400 þús. kr. í laun mun fá ríkisstyrk til þess að bjóða betur í íbúðir og spenna upp verðið. Að því leyti er þetta alls ekki skynsamleg aðgerð þjóðhagslega séð og hún er auðvitað ósanngjörn af þessum aðstæðum.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan í framsöguræðu að hann væri á móti millifærslukerfum. Hann segir það oft. En hér er alveg eins og í leiðréttingunni verið að búa til nýtt millifærslukerfi. Það tekur hins vegar ekki tillit til tekna eða eigna með jákvæðum hætti. Alveg eins og í leiðréttingunni, þar sem fólk sem þekkti jafnvel bara skuldavanda af afspurn fékk peninga frá hinu opinbera en þeir sem voru í mestum skuldavanda og skulduðu mest miðað við laun fengu minnst, þá er hér búið til kerfi þar sem er engin trygging fyrir því að stuðningurinn fari til þeirra sem raunverulega eru í vanda með að kaupa sér íbúð.

Það sem við sjáum er að ríkisstjórnin hefur veikt millifærslukerfið sem fyrir er, vaxtabótakerfið, sem akkúrat passar upp á að þeir sem eiga miklar eignir og þeir sem skulda lítið fá ekki neitt. Á móti býr hún til ný millifærslukerfi til þess að bera fé á þá sem skulda lítið, hafa miklar eignir og háar tekjur. Það er ömurlegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra reyna að halda því fram að hann sé á móti millifærslukerfum við þessar aðstæður. Hann er konungur nýrra millifærslukerfa, er að kynna millifærslukerfi númer tvö, sem er eins „regressíft“, eins og það er kallað á erlendum tungumálum, og mögulegt er, eins öfugsnúið og mögulegt er, veitir hlutfallslega mest fé til þeirra sem minnst þurfa á því að halda, alveg eins og leiðréttingin gerði.

Eitt er mjög mikilvægt að hafa í huga. Þegar gagnrýni er sett fram á niðurskurð ríkisstjórnarinnar á vaxtabótakerfinu heyrum við alltaf þann söng að skuldir hafi lækkað svo mikið sem hlutfall af landsframleiðslu að það sé ástæðan fyrir því að vaxtabótaútgjöld hafa lækkað. Það er mikilvægt að leiðrétta þetta hér úr ræðustól Alþingis. Landsframleiðslan hefur aukist. Það er stóri áhrifaþátturinn í samanburði skulda og landsframleiðslu. Svo er það auðvitað þannig að þeir peningar sem veittir voru í leiðréttingunni og möguleikarnir sem fólk hefur haft til að lækka skuldastöðu með séreignarsparnaði hefur haft lækkun á skuldastöðu í för með sér, guð minn góður, annað hvort væri nú. En lækkun vaxtabótanna sem nemur 15 milljörðum á ári frá því þegar best lét í tíð síðustu ríkisstjórnar — vaxtabætur eru núna í kringum 7 milljarðar, voru 22 þegar best lét — er fyrst og fremst vegna þess að fasteignaverð hefur hækkað. Fólk á því meira í húsnæði sínu en sú staðreynd að hlutirnir líti vel út á pappírnum hefur hins vegar nákvæmlega engin áhrif á greiðslubyrði fólks. Lækkunin stafar líka af því að viðmiðunarfjárhæðir hafa ekki heldur verið hækkaðar hvað varðar laun. Síðan hafa orðið miklar launahækkanir, en þær ganga jafnt yfir alla, yfir vinnumarkaðinn allan. Hugmyndin að baki vaxtabótum var alltaf sú að jafna hlutfallslega stöðu íbúðakaupenda gagnvart öðrum í samfélaginu, mæta hinum hlutfallslega kostnaði sem er meiri hjá þeim sem eru að kaupa íbúð en öðrum.

Ég verð að segja að ég hef orðið svolítið hissa á þeirri miklu andstyggð sem núverandi ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkar virðast hafa á vaxtabótakerfinu og barnabótakerfinu ef út í það er farið líka, því að ég hélt að um það væri nokkur rík samfélagsleg samstaða að þessi stuðningur ætti að ganga býsna hátt upp tekjustigann og vera fólki til stuðnings. Það sem hefur gerst vegna þessarar sveltistefnu ríkisstjórnarinnar í vaxtabótakerfinu síðustu ár er að fullt af fólki sem fékk greiðslumat í hittiðfyrra eða árið þar áður er að detta út úr kerfinu í dag, þvert á þær væntingar sem það hafði. Ríkisstjórnin hefur með því að breyta grundvallarviðmiðum í vaxtabótakerfinu verið að rýra stöðu fólks, hún ber ábyrgð á brostnum væntingum og því að fólk situr núna uppi með afborganir sem það gerði ráð fyrir að fá vaxtabætur til að hjálpa sér við í samræmi við áratugahefð. Svo kemur hæstv. fjármálaráðherra og segist vera á móti millifærslukerfi en býr til nýtt millifærslukerfi til að veita opinbert fé til þeirra sem hingað til hafa ekki fengið það og þurfa sannarlega ekki á því að halda.

Kosturinn við vaxtabótakerfið er nefnilega sá að það er mjög skynsamleg leið til að koma peningum til þeirra sem á þurfa að halda vegna íbúðakaupa. Aukin framlög í vaxtabótakerfið hafa lítil sem engin þensluáhrif, alla vega minni þensluáhrif en nokkur önnur millifærsluaðgerð sem mögulegt er að grípa til, minni en leiðréttingin og minni en sú aðgerð sem verið er að leggja til núna, vegna þess að þar er tryggt að peningarnir berist bara þeim sem raunverulega þurfa á stuðningi að halda til að standa undir afborgunum. Aukin framlög í vaxtabótakerfið er besta leiðin til þess að styðja við íbúðakaupendur, fyrstu íbúð. Það má útfæra það sérstaklega, þá væri líka tryggt að þeir fái raunverulega aðstoð sem raunverulega þurfa á að halda en að við séum ekki að nota ríkisfé til þess að auðvelda fólki með 1.400 þús. kr. í mánaðarlaun að bjóða hærra í íbúðir sem það er hvort sem er að kaupa sér.

Virðulegi forseti. Síðan er gert ráð fyrir því að séreignarsparnaðurinn sé nýttur í þetta. Ég hef miklar efasemdir um það og tel það ekki skynsamlegt til langframa. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Í fyrsta lagi er mikilvægt að fólk safni séreignarsparnaði og eigi hann sem valkost. Fyrir 40 árum síðan, 30 árum, 20 árum, áður en séreignarsparnaði var komið upp, þá var eiginlega allur lífeyrissparnaður Íslendinga framan af í steinsteypu. Síðan byggðum við upp almennt lífeyriskerfi, síðan byggðum við upp séreignarlífeyriskerfi til þess að fólk væri ekki með allan sinn sparnað í steinsteypu.

Í frumvarpinu kemur fram að það sé allt í lagi að nota séreignarsparnaðinn á fyrstu árum ævinnar í eitthvað annað af því að í lok starfsævinnar muni hann samt duga til þess að fólk fái hærri lífeyri en sem nemur launum. Ja, það er ekki eini tilgangur séreignarsparnaðarins. Séreignarsparnaður er ekki bara til þess að vera til reiðu til útgreiðslu lífeyris. Við erum nýbúin að ganga í gegnum fjármálaáfall. Þá var sú staðreynd að fólk átti séreignarsparnað gríðarlega góð og jákvæð staðreynd sem leiddi til efnahagslegs stöðugleika. Í fyrsta lagi gat fólk í skuldavanda fengið að taka út séreignarsparnaðinns, en hann er undanþeginn aðför og undanþeginn gjaldþroti. Fólk sem var að missa húsnæði sitt eða var í miklum greiðsluvanda gat sagt við bankann: Ég á hérna pening sem ég mun ekkert koma með nema þið mætið mér og fékk þar af leiðandi samningsstöðu út á það að eiga séreignarsparnað.

Stefna þessarar ríkisstjórnar er sú að í næstu niðursveiflu muni enginn eiga neinn varasjóð. Öll sú kynslóð sem nú er að kaupa fyrstu íbúð mun ekki eiga neinn varasjóð til að grípa til í næstu niðursveiflu og ekkert hafa til að reiða sig á. Allur hennar sparnaður verður bundinn í steinsteypu. Steinsteypa er vissulega eign sem heldur verði í gegnum áratugina, en vandi hennar sem eignaforms er sá að steinsteypa er óseljanleg í kreppu eins og allir vita sem þurftu að selja íbúðir sínar á árunum 2008, 2009 og 2010. Hrynur í verði í kreppu.

Þessi aðgerð mun hafa vond áhrif á fjármálastöðugleika á Íslandi. Hún mun gera það að verkum að fyrstu íbúðar kaupendur nú verða verr í stakk búnir til þess að takast á við fjármálaáfall sem ríður yfir næst, vegna þess að þessi kynslóð mun engan varasjóð eiga. Við skulum bara horfa á hagtölurnar, mikilvægi þess fyrir efnahaginn, mikilvægi þess fyrir tekjur sveitarfélaga, mikilvægi þess fyrir neyslu í samfélaginu, að það var hægt að greiða út séreignarsparnað fyrir fólk sem var á húsakaupaaldri í síðustu kreppu.

Ætla menn sem sagt í alvöru að segja að þetta skipti engu máli sem sveiflujöfnunartæki? Hvar er matið á áhrifum þessarar aðgerðar fyrir fjármálastöðugleika í landinu þegar við erum að búa til sem sagt heila kynslóð íbúðakaupenda sem mun engan varasjóð eiga og engin tækifæri eiga til þess að verja sig fyrir sveiflum?

Virðulegi forseti. Þegar maður er búinn að rekja alla þessa ágalla þá er augljóst að þetta úrræði er miklum göllum búið. Það skiptir óskaplega miklu máli að finna betri leiðir til að mæta fyrstu íbúðar kaupendum. Ég held að þar þurfi tvennt til að koma. Einhvers konar sérstakt sparnaðarúrræði þar sem mætt er fólki sem leggur fyrir, en svo líka betri vaxtabætur og sérstakar viðbótarvaxtabætur fyrir fyrstu íbúðar kaupendur. Það mun raunverulega mæta þeim sem eru á lágum launum og eru að reyna að kaupa sér íbúð. Fólk sem er með 1.400 þús. kr. í mánaðarlaun þarf ekki opinberan stuðning til að kaupa sér fyrstu íbúð og spenna fasteignaverð upp fyrir hinum. Þessi tillaga og þetta frumvarp hér er bara áframhald á þeirri áráttu Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnarinnar að búa til ný og ný millifærslukerfi sem flytja fé frá þeim sem þurfa til þeirra sem þurfa ekki. Það er ámælisvert og það er rangt. Og að vefja það inn í eitthvert orðskrúð að menn séu á móti millifærslukerfum er ömurleg þversögn.

Þá er ég nú ekki búinn að ræða um eitt, um það eiginlega hlálega ástand sem við búum við í dag, að sjá þann stjórnmálaflokk sem á tyllidögum talar fyrir athafnafrelsi og frelsi einstaklingsins, koma og bjóða fólki upp á skattafslætti ef það gerir þetta eða gerir hitt. Þetta er sami flokkur og lagðist gegn því í fyrra að lagður yrði á sykurskattur. Hvað mun koma næst? Skattafsláttur fyrir þá sem kaupa grænmeti eða borða hollt? Þessi flokkur sem þykist á tyllidögum tala gegn neyslustýringu gengur fremst í því að búa til nýjar og nýjar leiðir til þess að skekkja þau góðu kerfi sem við höfum búið við á Íslandi sem hafa tryggt að opinber stuðningur fari til þeirra sem á þurfa að halda. Mér finnst mikil öfugþróun felast í frumvarpinu og sé ekki að rétt sé að styðja þetta mál.