145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:21]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er einfaldlega að rekja staðreyndir hvað varðar séreignarsparnaðinn. Það er stefnt að því af hálfu ríkisstjórnarinnar að ungt fólk noti allan sinn séreignarsparnað í tíu ár til að borga inn á íbúðir. Það þýðir að þegar harðnar á dalnum í efnahagslífinu, sem mun gera, og það verður skuldakreppa mun þetta fólk ekki eiga neinn séreignarlífeyrissparnað til að ganga í. Og ríkisstjórn á þeim tíma mun ekki hafa sömu möguleika og við höfðum 2008 til að heimila úttöku séreignarsparnaðar til að draga úr efnahagsáfalli, til að halda uppi eftirspurn í samfélaginu, til að draga úr atvinnuleysi og tryggja fjármálastöðugleika. Það er engin greining á þessum þætti í frumvarpinu.

Síðan er það auðvitað staðreynd að fyrstu íbúðarkaup hafa aldrei verið erfiðari. Af hverju er þá verið að koma með lausn sem mun leiða til þess að samkeppni um íbúðir mun aukast og verð þrýstast upp? Af hverju er verið að veita ríkisstyrk til fólks á háum launum til að bjóða hærra í íbúðir? Þetta er algjörlega óskiljanlegt. Svo kemur hv. þingmaður og ætlar að kenna mér eitthvað um framboð og eftirspurn á lóðum í Reykjavík. Það er verið að byggja upp í Reykjavík. En um daginn samþykktu hv. þingmaður og félagar hennar t.d. rýmkaðar heimildir til þess að reka Airbnb ofan í bæ þannig að það skýtur svolítið skökku við að hún tali um þann vanda sem kemur af íbúðaleigu þegar hennar stjórnarflokkar eru búnir að koma fram frekari rýmkun á slíkum rekstri og minni leyfisskyldu.

Reykjavíkurborg er hins vegar að láta byggja upp úti um allt. Það er gott fyrir hv. þingmann að fara í labbitúr. Það er verið að byggja á öllum auðum reitum. Reykjavík er í bullandi uppbyggingu og það er enginn lóðaskortur í Reykjavík.