145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir heldur sannfærandi ræðu. Ég verð að segja eins og er að áður en ræðan hófst var ég hallari undir þetta mál og aðeins meira á móti vaxtabótum. En ræða hv. þingmanns vekur mig til umhugsunar um það allt vegna þess að áhyggjur mínar af vaxtabótum almennt hafa verið þær að ágóðinn lendi einfaldlega í bönkunum, þeir hækki einfaldlega vextina. Hins vegar er það auðvitað þannig að vaxtabæturnar henta betur þeim sem eru með lægri tekjur, þannig að álagið dreifist væntanlega hlutfallslega meira til þeirra sem hafa hærri tekjur, þá er markmiðinu væntanlega náð. Þó held ég að það hljóti að stuðla að hærri vöxtum, sem eru þegar stórt vandamál á Íslandi og ekkert útlit er fyrir breytingar þar á. Mér finnst það vera svona vafaatriði sem ég næ ekki alveg að útkljá með sjálfum mér alfarið út frá spurningunni um hversu langt til hægri eða vinstri við teljum okkur vera. Tel mig reyndar ekki vera alveg jafn langt til vinstri og hv. þingmaður með fullkominni virðingu og alveg skömmustulaust. (Gripið fram í.)— Þetta er allt að koma, segir hv. þingmaður.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi áhyggjur með hliðsjón af því hvernig vaxtabætur að því er menn vilja meina geta haft áhrif til þess að hækka vexti, hvort hætta sé á því að ágóðinn lendi einfaldlega hjá bönkunum með öðrum hætti, svo sem að þeir hækki vexti eða breyti skilmálum með einhverjum hætti þannig að þeir njóti ágóðans en ekki þeir sem nýta sér þessi úrræði. Ég hef alltaf áhyggjur af þessu þegar menn fara að reyna að fikta í þessum málum hjá ríkisvaldinu vegna þess að það er ekki hugurinn sem gildir í fjármálum, það eru afleiðingar gjörðanna sem gilda. Oft eru þær ekki í miklu samræmi við hugann sem annars er fínn. Vegna þess að hv. þingmaður var hérna með tölur og hefur skoðað þær tölur talsvert betur en sá sem hér stendur þá hef ég mikinn áhuga á að heyra hvað hv. þingmaður hefur um það að segja.