145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns af vaxtakostnaði Íslendinga. Hann er allt of hár. Segja má að við séum með fjármagnið á fóðrum með stýrivexti upp á 5,75% núna á þessu stöðugleikatímabili. Við horfum upp á mjög litla verðbólgu en samt erum við með þessa háu stýrivexti og háa vexti á bankalánum, langt út úr öllu samhengi við nágrannalönd okkar. Rökin sem færð eru fyrir því eru launahækkanir á almennum vinnumarkaði, sem við erum samt öll sammála um að séu ekki að gera annað en leiðrétta í raun og veru stöðu þeirra hópa sem virkilega þurfa á því að halda. Við erum að horfa á kjör og deilurnar sem hér voru á vinnumarkaði sem snerust um það að ná lágmarkslaunum upp í 300 þúsund, sem eru samt undir framfærsluviðmiðunum sem við höfum sett okkur um það hvað kosti að búa í landinu. En síðan má auðvitað færa fyrir því rök að þær skattalækkanir sem hefur verið ráðist í, t.d. á þessu kjörtímabili, hafi haft þensluhvetjandi áhrif sem rökstyðja þá ákvörðun Seðlabanka Íslands að halda uppi vaxtastigi til að slá á þensluna.

Hvað varðar vaxtabæturnar sem svona sérstakt eldsneyti inn í það í ljósi þess að þær eru með þessar tengingar sem ég fór yfir og nýtast þá fremur hinum tekjulægri, þá held ég ekki að þær hafi verið sérstaklega þensluhvetjandi. Það er hins vegar sláandi að sjá hvernig þróunin hefur verið. Hlutfall barna- og vaxtabóta af skatttekjum árið 2012 var 9,1%, það er 4,7% árið 2016. Eins og ég fór yfir áðan er sameiginleg skerðing 57,7 milljarðar á núvirði á þessu kjörtímabili. Það er því alveg ljóst að þarna er verið að færa til fjármuni í stuðningi. Ef við erum á annað borð með þennan húsnæðisstuðning, hvert viljum við þá beina honum? Viljum við beina honum að tekjuhæsta fólkinu eða tekjulægsta fólkinu? Mér finnst þetta vera grundvallarspurningin ef við segjum já við því yfir höfuð að hið opinbera eigi að vera með húsnæðisstuðning, sem (Forseti hringir.) ég segi já við. En mér finnst mikilvægt að hann nýtist þar sem hann á heima.