145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er að mér þykir þetta heldur sannfærandi hjá hv. þingmanni og efasemdir mínar um þetta frumvarp hafa eiginlega bara aukist eftir því sem hv. þingmaður talar lengur um málið. En til að fá það skýrt, nú vitum við að vaxtabætur hafa verið lækkaðar og þar af leiðandi hafa útgjöld hjá þeim hluta ríkissjóðs minnkað. Veit hv. þingmaður til þess að sú lækkun geri það í raun og veru að verkum að þessi úrræði séu með öllu gagnslaus ef heildarmarkmið óháð tekjuhópum er að styðja við fólk í landinu til þess að borga af lánum og kaupa húsnæði? Til að orða spurninguna kannski á aðeins ónærgætnari hátt: Eru þessar aðgerðir blekking? Eða er það sanngjarnt að kalla þessar aðferðir blekkingar með hliðsjón af lækkun vaxtabóta? Ég áskil hv. þingmanni auðvitað fullkominn rétt til að orða þetta aðeins nærgætnara en þetta ef hún svo kýs.