145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:44]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég reyni að vera nærgætin. Þó að það valdi stundum miklum ofsa hjá hv. þingmönnum þá reyni ég að vera nærgætin. Ég mundi ekki endilega kalla þetta blekkingu, en staðreyndin er samt sú að aðgerðirnar sem ráðist hefur verið í á þessu kjörtímabili þegar við berum það saman við skerðingu vaxta- og barnabóta og lítum á þetta sem eitt mengi sem stuðning við fjölskyldurnar í landinu, þá eru þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í á þessu kjörtímabili að stórum hluta fjármagnaðar með því að skerða þetta annars staðar. Í fyrsta lagi er umfangið á leiðréttingum og séreignarsparnaðarleiðum að stóru leyti fjármagnað með því að taka peningana annars staðar frá. Í öðru lagi tel ég nýtinguna ekki vera réttmæta eða réttláta. Hún er ekki réttlát af því að við erum að nota þarna opinbert fé. Mín skoðun er sú, hv. þingmaður sagði að ég væri líklega talsvert til vinstri við hann, að hið opinbera eigi að sjálfsögðu að beina stuðningi sínum að því að jafna kjörin og um það hefur verið talsverð sátt í samfélaginu, t.d. í kringum barna- og vaxtabætur.

Því kemur það manni á óvart hvernig ríkisstjórninni hefur tekist í raun og veru að mörgu leyti án umræðu þegar kemur að skerðingu barna- og vaxtabóta að gera það í gegnum fjárlög með því að færa ekki til skerðingarhlutföll, það hefur gjörbreytt grundvelli húsnæðisstuðnings hins opinbera og stuðnings hins opinbera við fjölskyldur í landinu. Þetta er það sem við erum að sjá núna á fólki að það er að átta sig á að þessar breytingar, þ.e. skerðingarnar, eru að koma í ljós núna. Það eru margir sem telja sig illa svikna af því að hafa hlustað á forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar tala hér mjög fjálglega um heimilin í landinu, ansi margar fjölskyldur í landinu sem telja sig illa sviknar af því þegar þessar skerðingar fara að birtast og þær átta sig á því að þetta hefur veruleg áhrif á ráðstöfunartekjur (Forseti hringir.) þeirra og þetta bitnar auðvitað á þeim sem síst skyldi, tekjulægsta fólkinu og barnafólkinu.