145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég tek hér til máls en er í raun enn þá að móta mér skoðun á þessu máli. Ég verð að segja að mér hefur þótt þessi leið áhugaverðari af þeim tveimur sem voru boðaðar af ríkisstjórnarflokkunum við stjórnarmyndun, þ.e. mér finnst hún ekki jafn vond og hin og reyndar hef ég gegnum tíðina verið frekar hlynntari henni en á móti henni, en þó ekki á þeim forsendum og hún jafni kjörin eða stuðli að jöfnuði vegna þess að ég tel hana ekki gera það. Hins vegar er þetta, eins og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra kom inn á áðan, einnig efnahagsaðgerð.

Það sem ég velti fyrir mér núna er hvers vegna sé þörf á þessari efnahagsaðgerð áfram í ljósi þess að skuldir heimilanna hafa lækkað mjög mikið. Það var þannig við upphaf kjörtímabilsins samkvæmt hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að skuldir heimilanna voru yfir 100% af landsframleiðslu, sem er vissulega sjálfstætt efnahagslegt vandamál, en síðan hefur efnahagurinn batnað mjög mikið. Það er að mínu mati mestmegnis vegna ferðaþjónustunnar og ákveðinnar efnahagslegrar heppni, sem dæmi hefur heimsmarkaðsverð á olíu verið lágt og ýmislegt fleira spilar inn í sem er í sjálfu sér ekki endilega í höndum ríkisstjórnar. Það er svo önnur umræða. Eftir stendur að ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna er þörf á þessu sem efnahagsaðgerð með hliðsjón af breyttum aðstæðum.

Aftur á móti, þótt ég sé kannski ekki alveg jafn langt til vinstri og hv. þingmaður sem talaði á undan mér, þá er ég heldur ekki það langt til hægri að ég taki þvert fyrir alla stýringu á hagkerfinu. Mér finnst hún stundum vera við hæfi og það þurfi alltaf að meta það eftir því hvað um er að ræða. Þegar kemur að því að stýra hvernig fólk fjárfestir í ævikvöldinu þykir mér það áhugaverð spurning, svo ekki sé meira sagt.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé samfélagslega nauðsynlegt að skylda fólk með einhverjum hætti til þess að leggja fyrir. Ég tel svo vera af meira og minna sömu ástæðu og ég aðhyllist skólaskyldu vegna þess að á einum kafla í lífinu er maður ekkert endilega að pæla í því hvað gerist áratugum seinna. Afleiðingarnar af slíku einföldu og í raun og veru mjög eðlilegu hugsunarleysi eru mjög slæmar, ekki bara fyrir einstaklinginn heldur fyrir samfélagið sem heild. Þaðan kemur réttlætingin í mínum huga fyrir fyrrnefndri stjórn. Það er ekki algjörlega einkamál fólks hvernig ævikvöldið fer hvað varðar sparnað og slíkt. Ég aðhyllist því ákveðið ríkisinngrip þegar kemur að því að stýra fjárfestingu fólks í ævikvöldinu.

Hins vegar velti ég fyrir mér, og það er meira til að spyrja en að svara því endilega, hvort við eigum að stýra því hvort fólk fjárfesti í húsnæði sem það mun vissulega þurfa alla ævi eða hvort það fjárfesti í sjóði sem ber vonandi einhverja ávöxtun og fylgir verðlagi þannig að fólk geti haft tekjur á ævikvöldinu án þess að lenda í miklum vandræðum.

Þessi hugmynd sem við ræðum hér fæddist eftir hrun, fæddist eftir því sem ég fæ best séð rétt fyrir alþingiskosningar 2013 þegar umræðan einkenndist mjög mikið af vonbrigðum vegna þróunar á húsnæðismarkaði í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Ég upplifði þetta alltaf þannig að hv. Framsóknarflokkur var alltaf að lofa þessum ókeypis peningum og allt það, eins og ég kalla það, og það var aðferð sem ég hef orðið meira og meira á móti eftir því sem ég hef pælt meira í henni. Hún er bæði óréttlát og óskynsamleg og vond nýting á skattfé, ég gæti reyndar farið með pistil hér á eftir um það hvað mér finnst sú hugmynd vond. En þessi aðferð hefur mér þótt skynsamlegri og ekki síst vegna þess að hún einkennist ekki af alveg sama popúlisma verð ég að segja eins og hin aðferðin sem Framsóknarflokkurinn predikaði á sínum tíma. Mér finnst samt sem áður eins og hún sé svar við þeim popúlisma og þeirri háværu kröfu sem var til staðar í alþingiskosningunum 2013. En þótt hún sé að mínu mati skynsamlegri þá kem ég aftur að þessari spurningu sem ég velti fyrir mér í kjölfar orða hæstv. ráðherra um að hér sé um efnahagsaðgerð að ræða, því ég tel að ekki sé endilega þörf fyrir hana lengur. Efnahagsaðstæður eru einfaldlega ekki eins og þær voru 2013, hvað þá 2009 og 2010 eftir hrunið 2008, þannig að mér finnst réttlætingin fyrir þessu máli hafa í raun dvínað með tímanum.

Á móti kemur að ég get alveg skilið það og tekið undir að ef það er eitt sem maður mundi vona að allir hefðu á ævikvöldinu sem og fyrr væri það þak yfir höfuðið. Þetta er ofboðslega eðlileg fjárfesting fyrir hinn almenna borgara. Mér finnst það vega upp á móti. Í raun má spyrja hvort það sé eðlilegra að hvetja fólk til þess að kaupa eitthvað slíkt, húsnæði er fjárfesting sem það skilur, sem það þarf persónulega og hefur betri yfirsýn yfir en kannski nýtingu lífeyrissjóðanna á iðgjöldum og uppsöfnuðum sparnaði. Þetta eru eins og ég segi vangaveltur hjá mér, það er bara vegna þess að málið er enn þá auðvitað í 1. umr. fyrir utan það að vera frekar áhugavert.

Það eru nokkrir hlutir sem ég velti fyrir mér í sambandi við þetta frumvarp sem ég býst nú við að lesa betur og nefndarálit í samræmi við aðra þingmenn eftir því sem fjallað er um málið á Alþingi. En það er t.d. þessi þök, af hverju eru þau þar sem þau eru? Hvers vegna eru þau tilgreind í tilteknum krónutölum? Væri ekki eðlilegra að miða við einhverja breytu sem breytist með tímanum? Það er ýmislegt slíkt sem ég hugsa að verði skýrara eftir því sem málið fær meiri umfjöllun hér á Alþingi.

Hitt er það sem ég hef alltaf mestar áhyggjur af þegar kemur að húsnæðiskaupum þjóðarinnar, það er raunhæft aðgengi að upplýsingum. Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði áðan í svari við andsvari mínu að fjármálastofnanir leggja sig meira fram núna við það að upplýsa neytandann um skilmála og afleiðingar ákvarðana en fyrir hrun, enda, var þetta náttúrlega bara vitleysa hvernig við Íslendingar höguðum okkur fyrir hrun. Það verður bara að segjast eins og er. Það var fráleitt hvernig við fórum með lán og peninga á þessum tíma fyrir hrun. Þótt ekki hafi allt lagast eftir hrun í fjármálakerfinu þá voru vissulega einhverjir lærdómar dregnir af því. Eitt hlýtur auðvitað að vera það að bankinn vilji að neytandinn skilji þetta sem best. Aftur á móti held ég að það sé líka mikil tilhneiging, ekki síst í stjórnmálunum en líka almennt hjá sérfræðingum og þar á meðal sérfræðingum fjármálastofnana, að ofmeta raunverulegan skilning neytandans á því sem hann er að gera. Eins og ég kom inn á áðan þá hef ég oft tekið eftir því þegar ég ræði við fólk sem er ýmist að íhuga að taka húsnæðislán eða tók húsnæðislán að það hefur mjög takmarkaðan skilning á láninu, upplifir sig máttlaust gagnvart þessum orðum og hugtökum sem einhverjir sérfræðingar segja þeim að þýði hitt og þetta. Mér finnst það vera stórt vandamál, algjörlega burt séð frá því hverjum það er að kenna. Það er hægt að segja: Jú, bankinn á að kynna þetta betur. Það er alveg hægt að segja að neytandinn eigi að kynna sér þetta betur. Gefum okkur að það sé satt. Það lagar ekki vandamálið að finna út hverjum það er að kenna. Ég vil meina að þetta sé raunverulegt vandamál.

Það hvernig fólk hagar sínu lánum, hvernig lánafyrirkomulagið er vegna húsnæðiskaupa, fer eftir mörgum þáttum í persónulegu efnahagslegu lífi þeirra, til að mynda atvinnuöryggi, hvort tekjurnar séu sveiflukenndar eða ekki, hvort þær séu fyrirsjáanlega sveiflukenndar eða ekki og auðvitað greiðslubyrði að sjálfsögðu og væntingar til þess hversu lengi það ætlar að eiga húsnæðið. Ef maður ætlar sem dæmi að eiga húsnæði, er algjörlega ákveðinn í því að eiga húsnæði til 40 ára þá er kannski ekki alveg tímabært að fríka út yfir lækkandi húsnæðisverði eftir fimm ár ef maður ætlar hvort sem er að eiga það í 35 ár í viðbót. Það er ýmislegt svona sem ég veit bara af reynslu af því að tala við fólk að það áttar sig ekki á. Ég fullyrði því að það er upplýsingaskortur til staðar og hann er vandamál. Það vandamál verður ekki leyst með því að kenna einfaldlega neytandanum um, sama hversu réttmætt það kann að vera út frá einhverjum umkenningareglum eða hvernig svo sem fólk vill fara að því að réttlæta sín sjónarmið.

Það var eitt sem ég tók eftir í frumvarpinu. Nú skil ég þetta frumvarp ágætlega eða tel mig gera það. En ég veit hins vegar að hinn almenni borgari sem er ekki mikið að pæla í þessum lánum mun skilja þetta frekar illa, held ég. Ég held að það geri það að verkum að flækjustigið við að taka húsnæðislán aukist pínulítið áfram. Það er ekki í sjálfu sér vont svo lengi sem pælt er í því að koma einhvern veginn til móts við það. Sérstaklega tók ég eftir því í 5. málslið 5. gr. að upplýsingaskyldan er hjá vörsluaðila en ekki hjá lánveitanda. Miðum við það að einstaklingur fær upplýsingar frá bankanum sínum um stöðu lánsins og afborganir og gefum okkur að þetta sé verðtryggt jafngreiðslulán sem er flókið og erfitt fyrir venjulegt fólk eða flest fólk að reikna út nema það leggi þó nokkurn metnað í það — það er kannski í lagi fyrir fólk sem er mikið að pæla í þessum málum svo sem þingmenn sem eru að kynna sér þingmál eða sérfræðinga í banka eða ráðgjafa, eitthvað því um líkt, en fyrir fólk sem er einfaldlega að leita að þaki yfir höfuðið og finna eitthvert lán sem virkar fyrir það, þá krefst þetta þó nokkuð mikillar heimavinnu sem fólk af einni eða annarri ástæðu stundar ekki eða telur sig ekki geta unnið eða miklar fyrir sér eða hver svo sem ástæðan er, og allt veldur þetta því að fólk skilur þetta ekki mjög vel. Sem dæmi þá hefði ég haldið, varðandi það sem kemur fram í 5. málslið 5. gr., að það væri auðveldara fyrir neytandann að upplýsingaskyldan væri alfarið á könnu lánveitandans þannig að það væri skýrara hvað sé í gangi.

Mér finnst alltaf svolítið leiðinlegt að hlusta á fólk segja, með réttu, að það skilji ekkert í láninu sínu. Það fær einhverja útprentun, það sér einhverjar tölur og það eru alls konar fiff til þess að láta verðtryggð jafngreiðslulán sem eru sérstaklega flókin virka fjárhagslega, en sá fórnarkostnaður fylgir að neytandinn skilur ekki hvað hann er að gera. Þegar neytandinn skilur ekki hvað hann er að gera þá er miklu, miklu líklegra að hann geri mistök eðli málsins samkvæmt. Það er eðli upplýsingaskorts sama af hvaða ástæðum hann kemur til.

Ég held að það sé eitthvað sem við þurfum að einbeita okkur meira að, að auka upplýsingaskylduna. Þá verð ég reyndar að viðurkenna hérna á lokamínútunum að ég hef enga galdralausn á því. Bankarnir eru nú þegar með ágætar reiknivélar sem lýsa þessu ágætlega ef maður setur inn verðbólguna, en það er samt háð því að fólk skilji hugtökin sem bankarnir nota. Í mínum draumaheimi hvað þetta varðar mundi enginn taka húsnæðislán án þess að skilja til hlítar hvað þessi orð þýða, hvaða áhrif þetta hefur og hvaða þætti eigi að taka til hliðsjónar þegar fólk ákveður hvaða lán henti því best, t.d. hvort tekjurnar séu sveiflukenndar eða ekki, hversu öruggar þær eru, hversu líklegar þær eru til að fylgja verðlagi o.s.frv. Annað sem margir gleyma að pæla í er að það er misjafnt eftir stéttum og starfssviðum hversu seint fólk getur búist við því að launin hækki í kjölfar verðbólgu. Sumar stéttir eru mjög veikar fyrir verðbólgu vegna þess að þær hækka seinna í launum en aðrar á meðan aðrar stéttir geta gengið að því sem vísu, vegna þess að það er samkeppni í iðnaðinum eða hvaðeina, að laun þeirra fylgi verðlagi í meginatriðum fyrir utan kannski einstaka atriði eins og hrunið 2008.

Það er margt í þessu sem mér finnst þurfa að bæta þegar kemur að upplýsingum til neytandans. Ég fullyrði reyndar að ef það væri bara eitt atriði sem við gætum gert til þess að bæta möguleika fólks á því að ráða við sín lán þá væri það að laga þetta. En ég hef engar galdralausnir. Mér þykir rétt að vekja athygli á því.

Nú hef ég ekki mikinn tíma eftir. En ég velti fyrir mér hvaða áhrif aðgerðin muni hafa á greiðslumat, sér í lagi gagnvart óverðtryggðum lánum. Hér er vissulega ákveðinn hvati til að taka óverðtryggð lán. Ég mundi nú ekki kalla það forræðishyggju eins og ég hef heyrt hér á göngunum, ég tel svo ekki vera. Þetta er hvati en ekki forræðishyggja. Hér er ekki verið að taka ákvarðanir fyrir fólk heldur veita því möguleika. En ég hygg að það muni hafa áhrif á greiðslumatsferlið. Ég óttast að í því leynist hætta á því að ágóðinn verði tekinn til bankanna, sem er að mínu mati auðvitað alltaf tilfellið þegar hrært er í þessum efnum.

Enn sem komið er þá hyggst ég greiða atkvæði með frumvarpinu nema eitthvað verra komi í ljós, þó auðvitað með þeim fyrirvara að hér er um ófullkomna leið að ræða. Henni fylgja kostir og gallar og það er matsatriði hjá okkur öllum hvort vegi þyngra. Því þykir mér mikilvægt að við áttum okkur á afleiðingum þess að samþykkja þetta mál.