145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[14:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það eru þó nokkur tímamót þegar þessi þingsályktunartillaga, sem í þessu formi er í fyrsta sinn lögð fyrir þingið, kemur til afgreiðslu. Ég þakka fyrir gott samstarf við fjárlaganefnd sem hefur gefið út mikið nefndarálit um málið. Þetta eru breiðu línurnar og sagan um horfurnar í ríkisfjármálum til næstu ára og það er góð saga. Það er bjart fram undan, það er svigrúm til að auka við á útgjaldahliðinni til brýnna samfélagsmála en á sama tíma fara skuldir lækkandi. Í þessari áætlun er sömuleiðis svigrúm fyrir enn frekari áherslubreytingar eftir því sem tímanum vindur fram, vegna þess að það er góður varasjóður til staðar hverju sinni. Þetta er einhver bjartasta langtímaáætlun sem ríki í okkar heimshluta getur teflt fram við núverandi aðstæður. Það er fagnaðarefni.

Það reynir síðan á þingið í framhaldinu hvort menn vilja halda sig við þá stefnumörkun sem birtist í fjármálastefnunni, að hér verði ríkissjóður rekinn með afgangi, (Forseti hringir.) og að sígandi lukka sé best þegar kemur að ríkisfjármálum, að við getum smám saman af aga og ábyrgð byggt upp lífskjörin í landinu. Til þess eru svo sannarlega tækifæri.