145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[14:23]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég held að ágætt sé að rifja upp þegar síðasta ríkisstjórn lagði fram sambærilegt plagg um ríkisfjármál fyrir árið 2009–2013, að þá stóð þar ekki steinn yfir steini. Verðbólgan var langt umfram það sem spáð var og hagvöxtur langt undir því sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Í þessari ríkisfjármálaáætlun er lagt til að hér verði agi og ábyrgð til næstu ára og við reynum að koma böndum á verðbólgu og auka hagvöxt jafnt og þétt. Það er líka svigrúm innan þessarar áætlunar til að auka til velferðarmála og samgöngumála. Það finnst mér vera góð tíðindi. Ég vil gjarnan setja meira í þá málaflokka en það verður að vera gert með ábyrgð og ráðdeild að leiðarljósi. Þess vegna mun ég styðja þessa áætlun.