145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[14:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að megi segja um þessa tillögu að hrygglengjan í henni er smíði sérstaks mismununartækis sem á að verða við lýði gagnvart ungu fólki í landinu næstu tíu árin, sérstakt mismununarinstrúment sem á að auka verulega á aðstöðumun ungra fjölskyldna í landinu hvað varðar möguleika á að koma sér upp húsnæði. Ég skal fara yfir þetta betur og rökstyðja nokkrum orðum og vænti þess m.a. að hæstv. fjármálaráðherra leggi eyrun við.

Jú, hver og einn einstaklingur á á tíu ára tímabili að geta lagt fyrir af séreignarsparnaði sínum sem nemur 500 þús. kr. frá sér og launagreiðandanum í tíu ár. Það sem meira er, ríki og sveitarfélög gefa eftir tekjuskatt og útsvar af þessum séreignarsparnaði sem aldrei kemur þar af leiðandi til skattlagningar. Rétturinn er bundinn einstaklingi þannig að hjón og sambýlisfólk geta tvöfaldað þessa fjárhæð, þá eru það 10 milljónir. Skattaeftirgjöfin, framlag hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, er af stærðargráðunni 1,5–2 milljónir í fyrra tilvikinu og 2–4 milljónir í seinna tilvikinu, eftir því til hvers konar skattlagningar þetta kæmi, í lægra eða efra þrepi. Þetta eru umtalsverðir fjármunir. Hvers vegna er þetta mismununartæki? Þetta er félagslegur píramídi á hvolfi. Það er vegna þess að framlag ríkisins og sveitarfélaganna er þeim mun meira sem tekjur viðkomandi eru hærri þangað til þakinu er náð. Þetta er félagslegur píramídi á hvolfi. Þetta er hliðstætt því að reglurnar um persónufrádrátt væru þannig að hann væri 0 kr. fyrir lágmarkslaun en færi síðan vaxandi í áföngum upp í 50 þús. kr. eða svo eftir því sem launin hækkuðu. Dytti einhverjum manni í hug að hafa þannig persónufrádrátt, að fara þannig að í skattkerfinu? Nei.

Við skulum horfa smástund fram hjá því að hér sé um að ræða eftirgjöf á skatttekjum ríkis og sveitarfélaga sem aldrei koma til vegna þess að í stað þess að menn greiði annaðhvort staðgreiðslu af launum sínum eða að menn setji óskattaðan séreignarsparnað inn í kerfið og taki hann út síðar í bráðum tilvikum þá kemur fullur tekjuskattur og útsvar af þessum fjármunum, af því að þetta eru skattskyldar launatekjur. Horfum fram hjá því. Segjum bara að um sé að ræða fjármuni beint úr ríkissjóði. Tökum þrjár fjölskyldur sem eru eins settar á sínu æviskeiði, 30–35 ára, segjum hjón eða par með eitt barn. Allar eiga sér þær þann draum að komast í eigið húsnæði en kerfið er þannig frá ríkinu að ein fjölskyldan fær 0 kr., sú í miðið fær 2 milljónir og best setta fjölskyldan fær 4 milljónir frá ríki og sveitarfélögunum. Þessi mismunun raungerist að vísu ekki nema á tíu árum, en útkoman er nákvæmlega þessi, eins og við værum að setja upp kerfi sem mætti þannig ungum fjölskyldum í landinu, sem ættu sér þann draum að eignast húsnæði, að sumar þeirra fengju 0 kr., aðrar fengju 2 milljónir og enn aðrar 4 milljónir, því að það verður niðurstaðan að tíu árum liðnum.

Aðstæður þessara fjölskyldna gætu t.d. verið þannig að fyrsta fjölskyldan er með lágar tekjur, hún er aðflutt eða hefur þurft að leigja sér húsnæði, á ekki kost á því að búa heima hjá foreldrum. Hún kemst aldrei í þær aðstæður að spara neitt í séreignarsparnaði. Hún hefur ekki ráð á því. Hún fær 0 kr. (Gripið fram í.)Hún fær 0 kr. í stuðning af sameiginlegu aflafé landsmanna, skatttekjum, til að koma sér upp húsnæði. (Gripið fram í.)— Ég er að tala hér um það sem ríki og sveitarfélög leggja af mörkum í púkkið, hæstv. forsætisráðherra. Ég er ekki að tala um þá miskunnsemi stjórnvalda að leyfa mönnum að nota sitt eigið fé í húsnæðisöflun, hvort sem það væri séreignarsparnaður eða annað. Ég er að tala um meðgjöfina frá ríki og sveitarfélögum. Henni verður svona skipt í þessu kerfi. Þær fjölskyldur sem aðstæðnanna vegna eru tekjulágar eða af öðrum aðstæðum geta ekki farið í séreignarsparnað, hafa ekki ráð á því, ná varla endum saman fyrir, þær fá 0 kr. í stuðning.

Svo tökum við miðfjölskyldu, fjölskyldu númer tvö, hún er í lægri miðlungstekjum og hún sparar eins og hún getur, hún kvelur sig eins og hún getur til þess að taka fullan séreignarsparnað af tiltölulega lágum launum, en af því launin eru svo lág þá fær hún ekki nema helminginn af stuðningnum frá ríki og sveitarfélögum, fær ekki nema 2 milljónir þótt hún þræli tíu árin á lágum launum til þess að reyna að mynda sparnað.

Þriðja fjölskyldan er vel sett. Hún býr í stórum kjallara í fínu einbýlishúsi í Reykjavík í skjóli foreldra annars aðilans og er í góðum færum til þess að spara fullan séreignarsparnað í nokkur ár af háum tekjum. Hún fær 4 milljónir. Hún fær 4 milljónir þegar hún fer og kaupir sína fyrstu íbúð. Dytti einhverjum í hug að setja kerfið upp svona, að sumar fjölskyldur fengju 0, aðrar 2 milljónir og aðrar 4? Nei, auðvitað ekki, en það er verið að reyna að fela það í þessu máli að þetta sé ekki mismununartæki, instrúment af því tagi sem það er. Látum vera einhverjar tímabundnar aðgerðir eins og hér voru lögfestar 2014 um þriggja ára tímabil þar sem menn gætu notað séreignarsparnað og fengju skattafslátt til þess að laga stöðu sína í ástandinu rétt eftir hrunið og/eða greiða niður höfuðstól lána. En hér er annað og meira á ferðinni. Hér á að lögfesta til tíu ára mismununarkerfi af þessu tagi gagnvart ungu fólki og möguleikum þess á fasteignamarkaði. Það er fáheyrt að manni skuli detta slíkt í hug. Það er fáheyrt og þarf a.m.k. Sjálfstæðisflokkinn til með sinn þæga fylgisvein Framsóknarflokkinn í eftirdragi. Og mismununinni verður ekki lokið þar með, eða aðstöðumuninum, því að hugleiðum svo ólíka stöðu þessara þriggja fjölskyldna eftir þessi tíu ár eða þegar peningunum hefur verið útdeilt, 0, 2 milljónum, 4 milljónum, þá er best setta fjölskyldan, sú sem í raun þurfti minnst á stuðningi að halda, komin í eigin húsnæði og farin að mynda talsverða eign í því af því að henni hefur verið hjálpað sérstaklega til þess. Miðfjölskyldan er sennilega einhvers staðar í járnum, á ekki mikið í sínu húsnæði. 0-fjölskyldan, sem fékk ekki krónu er líklegust til þess að vera enn á leigumarkaði í erfiðri stöðu. (Gripið fram í: … flutt úr landi.) Já, ef hún er ekki farin úr landi.

Þetta gengur ekki, herra forseti. Svona geta menn ekki staðið að málum. Þetta stenst enga skoðun um jafnræði og sanngirni í okkar landi. Gengur ekki upp. Hvers vegna í ósköpunum eru þá ekki sambærilegur fjármunir teknir og settir í almennan húsnæðisstuðning til allra fjölskyldna, ef ekki væri með prógressífum hætti þannig að tekjulægri fjölskyldurnar fengju meiri stuðning? Einhvern tímann hefði það nú verið talið í lagi. Hvað sagði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hérna um barnabæturnar fyrr í dag? Hvernig réttlætti hann allan niðurskurðinn og láglaunatengingu barnabótanna? Jú, við viljum hjálpa tekjulægstu fjölskyldunum mest. Hann var fljótur að gleyma því þegar hann fór svo að mæla fyrir þessu frumvarpi og fór að reyna að réttlæta það að þetta gæti gengið upp, viðurkenndi að vísu að stuðningurinn yrði mismunandi mikill eftir því hvað launin væru há.

Af hverju er þá ekki frekar tekin tiltekin upphæð og sagt: Þetta stendur öllum ungum fjölskyldum til boða í stuðning við fyrstu íbúðakaup, ef það er vilji að reyna að kljúfa þau? 2 milljónirnar, og borga það bara út um leið og kaupin hafa verið staðfest. Allir fá jafnt. Eða að setja upp almennt húsnæðissparnaðarkerfi og ríkið t.d. borgi krónu á móti krónu inn á þá reikninga sem yrðu bundnir við húsnæðiskaup, þannig að allir fái jafnt eftir því sem þeir eru að reyna að spara. Hugsum okkur að þetta væri þannig útfært að sá hluti launatekna námsmanna sem gengi inn á slíka bundna húsnæðisreikninga teldist ekki tekjur í skilningnum lánsréttur hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Þá gætu menn reynt að afla tekna og vinna með náminu og byrja að byggja upp þennan sjóð. Hvernig verður staðan hjá þeim sem eru þannig settir að þeir verða að reiða sig á Lánasjóð íslenskra námsmanna með framfærslu í gegnum langt háskólanám? Þeir mega ekki afla nema 1 milljón kr. í tekjur, þá fer lánsréttur þeirra að skerðast. Ekki hafa þeir mikla möguleika á að leggja fyrir í séreignarsparnaðinn þannig. Augljóslega ekki. Eiga þeir þá þrítugir eða rúmlega það, komnir úr námi, að fara inn í þetta tíu ára kerfi o.s.frv.?

Það eru á þessu svo gríðarlegir ágallar að ég trúi því ekki að menn ætli að láta sig hafa það að lögfesta þetta í tíu ár, jafnvel þótt Sjálfstæðisflokknum þyki óskaplega vænt um séreignarstefnu sína í húsnæðismálum. Ef vilji er til þess og hann er örugglega til staðar, ég held að allir séu sammála um það, við viljum gjarnan styðja ungt fólk sem vill velja þá leið sjálft að reyna að eignast sitt húsnæði, búa í eigin húsnæði, til þess. Það eru góð og gild rök fyrir því að aðstoða menn sérstaklega við fyrstu íbúðakaup, það er erfiðasti þröskuldurinn, og það er víða gert. Auðvitað þarf líka að gæta jafnræðis gagnvart þeim sem eru á leigumarkaði og mismuna ekki í þeim skilningi, en það eru til ótalmargar betri og eiginlega allar aðferðir betri til þess en þessi hér, sem miklu betur svara kröfunni um jafnræði og réttlæti og sanngirni. Þetta er glórulaust algerlega.

Síðan má velta fyrir sér öðrum þáttum þessa máls. Ég gef ekki mikið fyrir kostnaðarútreikningana og matið á því hver langtímaáhrif þess verða á tekjur ríkis og sveitarfélaga. Hér er náttúrlega nákvæmlega sami blekkingaleikurinn viðhafður og þegar hið fyrra séreignarsparnaðarfrumvarp kom fram á sínum tíma 2014 að það er látið eins og það sé ekkert framtíðartekjutap fólgið í þessari aðgerð, það er ekki reynt að meta það. Höfundarnir eru að vísu það heiðarlegir að þeir segja neðst á bls. 11: „Langtímaáhrif úrræðanna eru töluverð en eins og fram hefur komið í greinargerðinni er ekki unnt að áætla þau nákvæmlega þar sem dreifing á tekjutapinu liggur ekki fyrir.“

Auðvitað er það þannig að með þessu eru ríki og sveitarfélög að afsala sér tekjum strax í núinu af tvennum toga, annars vegar vegna þess að aukin þátttaka verður í þessum skattfrjálsa séreignarsparnaði, talsvert af launatekjum fer þar af leiðandi inn í séreignarsparnað í viðbót við það sem ella væri og þar kemur tiltekið tekjutap, annars er það komið til skattlagningar, og síðan er hin beina eftirgjöf upp á tekjuskatt og útsvar af nafnfjárhæðinni. En þar með er ekki öll sagan sögð vegna þess að að því marki sem þetta fé hefði farið inn í séreignarsparnaðarkerfið og ávaxtast þar í 20, 30 ár þá hefðu ríki og sveitarfélög, samkvæmt okkar lögum, fengið fullan tekjuskatt og útsvar af allri útgreiðslunni síðar meir, líka ávöxtuninni. Framtíðartekjutapið, reikningurinn sem er sendur inn í framtíðina með þessu er miklu stærri en hann lítur út fyrir að vera í byrjun. Þetta er reynt að fela, í öllu falli ekki reynt að reikna út.

Hefur hæstv. fjármálaráðherra gengið frá samkomulagi við sveitarfélögin um þetta mál? Það gekk böksulega í fyrra sinn og ríkið ætlaði að bæta sveitarfélögunum að einhverju leyti tekjutapið í útsvari. Hvernig hefur farið með það? Er sátt um útdeilingu þeirra peninga? Og hafa þeir skilað sér? mætti spyrja. Mér er ekki kunnugt um að sveitarfélögin hafi samþykkt að lögfesta þetta heil tíu ár inn í framtíðina, vegna þess að þó að menn geri einhverjar áætlanir og einhverja lauslega útreikninga á mögulegu umfangi þessa núna þá segir ekkert til um það hvernig þetta gæti orðið að fimm árum liðnum eða svo og hvað margir tækju þá þátt í því o.s.frv.

En auðvitað eru það ekki aðalatriði málsins. Ég er ekkert uppteknastur af því þótt þarna sé að sjálfsögðu um að ræða tekjutap og reikning sem er sendur langt inn í framtíðina að stórum hluta til, svona 40% af kostnaðinum gróft reiknað, verður þannig falinn og geymdur inni í framtíðinni. Fyrir mér er prinsippið í þessu máli langmikilvægast. Það get ég einfaldlega ekki sætt mig við, að lögfesta þetta svona tíu ár fram í tímann. Nei, takk. Mismununarkerfi af þessu tagi gengur auðvitað ekkert upp, það er alveg auðséð mál.

Hæstv. ríkisstjórn er núna í aðdraganda kosninganna að tala sig upp í mikinn ham um það hvað hún hafi staðið sig glæsilega í húsnæðismálum og eignar sér að sjálfsögðu alla skuldalækkun heimilanna með húð og hári. Menn hampa hér tölum um lækkandi skuldahlutfall, skuldir heimilanna af vergri landsframleiðslu eins og þeir eigi það allt sjálfir og þær aðgerðir. Ætli það sé ekki hækkandi fasteignaverð, hækkandi landsframleiðsla og samfelldar aðgerðir frá árinu 2009 til og með auðvitað leiðréttingarinnar og allra þeirra hluta sem margt mætti svo sem segja um. Það er ánægjulegt að skuldir heimilanna sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa lækkað myndarlega, enda hefur landsframleiðslan aukist mikið. Hæstv. fjármálaráðherra nefndi að það hefði farið yfir 100% á síðasta kjörtímabili. Því miður var það þannig að einn af mestu veikleikum íslensks efnahagslífs fyrir hrun voru óhemjulegar háar skuldir íslenskra heimila. Íslensk heimili voru þau næstskuldsettustu í heimi árin fyrir hrun. Það var náttúrlega ein af ástæðum þess hversu ofboðslega sársaukafullt þetta varð gagnvart húsnæðisþættinum og stöðu heimilanna, það var hversu illa undirbúin við vorum (Forseti hringir.) til þess að mæta áföllum með allar þær miklu skuldir sem vitleysisgangurinn (Forseti hringir.) árin fyrir hrun hafði m.a. hlaðið á heimilin.