145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[15:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að ef vinnumarkaðurinn og stjórnvöld vinna saman sé hægt að skapa forsendur fyrir lægri vöxtum. Ég er eindregið þeirrar skoðunar.

Menn fara svolítið öfganna á milli í umræðunni. Mér finnst þetta hófleg leið sem er ekki í þeim öfgum, sem birtast hérna í umræðunni, að hygla þeim sem mest hafa á milli handanna. Við drögum mörkin rétt fyrir ofan millitekjur. Þegar menn tala um aðgerðir sem séu nauðsynlegar fyrir þá sem minna hafa milli handanna finnst mér að sama skapi stundum eins og menn ætli að ganga svo langt að senda þau skilaboð til fólks að það skipti bara engu máli hvað það leggur á sig, í hvaða starf það sækir, úr hverju það mun hafa að spila af sjálfsaflafé sínu vegna þess að ríkið muni síðan koma á eftir öllum þjóðfélagshópum og jafna leikinn einhvern veginn, að ríkið muni þannig lyfta undir með þeim sem minnst hafa, að það skipti á endanum engu máli hvað fólk er tilbúið að leggja á sig til að bjarga sér eða eiga fyrir húsnæði og öðrum lífsnauðsynjum heimilisins vegna þess að ef maður væri með minni tekjur og væri minna að vinna mundi ríkið hvort eð er bæta manni upp mismuninn.

Ég veit að hv. þingmaður er ekki þessarar skoðunar. Einhvers staðar hljótum við að geta fundið eitthvert jafnvægi þar sem er hvati til að leggja á sig til að vinna meira og skilaboð stjórnvalda verða: Við munum ekki taka það allt af þér til baka til að ráðstafa til annarra sem hafa minna.

Þessi umræða í þingsal er endalaus dans til að finna rétta taktinn og jafnvægið á milli þessara tveggja markmiða. Þetta er auðvitað ekki alveg svona svart/hvítt eins og er dregið upp í umræðunni þar sem við erum eingöngu að hygla þeim sem eru efnamestir og þeir sem minnst hafa á milli handanna fá aldrei neitt. Við erum nýbúin að samþykkja marga milljarða til þeirra sem minnst hafa einmitt í húsnæðisúrræði, (Forseti hringir.) almennu félagsíbúðirnar og húsnæðisbæturnar fara beint þangað. Þessi aðgerð er fyrir millitekjufólkið. Þeir sem hafa boðað að hér verði aftur tekið upp þriggja þrepa skattkerfi eru ekki að segja neitt annað en að breiðu bökin séu hjá millistéttinni í landinu.