145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[15:24]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kann að meta að hæstv. fjármálaráðherra segir einmitt að þetta sé ekki spurning um svart eða hvítt, þetta er jafnvægislist eins og ég fór yfir í minni ræðu. Við erum að tala um hvaða hvata við erum að skapa í hagkerfinu, í samfélaginu. Ég taldi augljóst að þessi ríkisstjórn væri svolítið mikið fyrir að reyna að skapa þann hvata að menn leituðu í há laun. Það er bara þannig að þá fær fólk mest frá ríkissjóði í formi skattafsláttar og nám verður hlutfallslega ódýrara fyrir þann sem er með hærri laun. Þar á að afnema tekjutenginguna svo dæmi sé tekið. Það eru skattahækkanir sem þessi ríkisstjórn hefur þó ráðist í eins og hækkun á matarskatti sem kom verst við þá sem hafa minnst og afnema þrepaskiptinguna. Ég rakti þetta áðan í minni ræðu.

Já, við erum að tala um jafnvægi. Við erum að tala um hvert pendúllinn leitar. Hann leitar alveg augljóslega í þá átt hjá þessari ríkisstjórn að henni er meira sama um þá sem hafa úr minna að spila. Því má halda fram með góðum rökum að þeir sem eru undir meðaltekjum í landinu muni t.d. fá mjög lítið úr þessu úrræði, það fólk mun ekki geta komið sér þaki yfir höfuðið, hjón með meðaltekjur, hvort um sig með 550.000 kr. á mánuði, það er 1,1 milljón á mánuði.

Auðvitað held ég því ekki fram að fólk hafi það eitthvað rosagott, en vegna þess fólks sem er á upphafsskrefum síns lífs eftir háskólanám og kannski ekki með miklar þarfir, ekki með stóra fjölskyldu, leyfi ég mér að spyrja: Eru það réttar áherslur að þurfa að fara í sérstakar aðgerðir umfram það að reyna að auka framboð á húsnæði, reyna að lækka vexti með þeim aðgerðum sem okkur eru tiltækar, reyna að skapa almennan grundvöll? Er þörf á sérstökum aðgerðum til að (Forseti hringir.) hjálpa þessum hópi að spara og koma sér upp húsnæði? Er ekki miklu betra að einbeita sér að almenna grundvellinum í staðinn fyrir að skila sífellt auðu þegar kemur að þeim mikilvægu verkefnum?