145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[16:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er að sjálfsögðu afar stór og mikilvæg spurning. Það sem fólk er sem sagt að gera er að fresta því að standa í fullum skilum með mánaðarlegar afborganir, það stendur auðvitað í skilum en það ákveður að greiða ekki að fullu áfallna vexti, verðbætur og afborganir af höfuðstól heldur gerir það síðar þannig að greiðslurnar verði jafnar. Höfuðstóllinn hækkar þá fyrstu 23–24 árin á 40 ára láni en greiðslubyrðin verður þeim mun meiri á síðari hlutanum.

Hvers vegna er þetta? Er þetta bara vaxtastigið? Ég er ekki alveg tilbúinn til að fallast á það, um leið og ég segi: Mér finnst vextir of háir á Íslandi. Mér finnst það eigi að vera okkar aðalbaráttumál að ná vöxtunum niður. Ég held við verðum líka að velta öðrum hlutum fyrir okkur. Hvernig erum við að skattleggja tekjur fólks? Getur verið að við þurfum bara að horfast í augu við það að við ættum að taka aðeins minna af tekjunum? Er virðisaukaskattsprósentan á Íslandi kannski fullhá? Vegna þess að hún hefur líka áhrif á húsnæðisverð í landinu. (Forseti hringir.) Við verðum að skoða allt tekju- og skattkerfið og þar með (Forseti hringir.) talið líka síðan vaxtakerfið (Forseti hringir.) til að leiða (Forseti hringir.) fram svör við þessari spurningu.