145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[16:19]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að mála sig upp sem sérstaklega ábyrgt stjórnmálaafl hvað varðar ríkisfjármál, sem er pínu fyndið svona í ljósi hrunsins, en ágætt að það sé framtíðarsýnin. Þá vil ég vara við því að svona frumvarp sé samþykkt eða þessi tvö saman án almennilegra greininga, því að við þekkjum öll áhrifin á fasteignamarkaðinn af kosningaloforði framsóknarmanna um 90% lán, þá hækkaði fasteignaverð og samkeppni á þeim markaði varð gríðarleg þegar fé streymdi út. Svo kom leiðréttingin. Hún hækkaði fasteignaverð hjá þeim sem þegar voru á markaðnum og gerði enn erfiðara fyrir nýja að komast inn á markaðinn. Ég hvet til þess að hér verði farið í almennilegar greiningar og skilgreint betur hvað þessi hliðrun á fasteignamarkaði þýðir, því að nú þegar er nær ókleifur múr fyrir ungt fólk að komast inn á markaðinn. (Forseti hringir.) Ég hef áhyggjur af því að þessar aðgerðir munu gera þeim sem enn eru utan hans enn erfiðara fyrir að komast inn.