145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[16:24]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið. Mig langar aðeins að fara inn á þau eldri lán sem eru til í dag, þessi 40 ára verðtryggðu lán. Mig langar aðeins að spyrja út í það vegna þess að við erum með þingmál í þinginu sem ég flutti ásamt öðrum hv. þingmönnum sem fjallar um að gera breytingar á útreikningi verðbólgu og verðtryggingar þannig að við mundum nota samræmda vísitölu neysluverðs í stað vísitölu neysluverðs. Þannig væri húsnæðisþátturinn tekinn út úr vísitölunni. Með því að breyta útreikningum á þessum vísitölum værum við að breyta frá þeim forsendum og jafnvel stuðla að því að heimilin eða eignir fólks lægju ekki undir ef áföll yrðu í efnahagslífinu. Hefur ráðherrann kynnt sér þessi mál og hvernig hugnast honum breyting sem þessi?