145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[16:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vandinn við að taka upp gjaldmiðil annars myntsvæðis eða annars ríkis er sá að sköpuð er hætta á því að gengi gjaldmiðilsins sé í engum tengslum við þá stöðu sem er í hagkerfinu í heimalandinu hverju sinni. Þannig gætum við skapað hættu á því að á sama tíma og hér kæmi mikið samdráttarskeið og jafnvel kreppa væri uppgangur á myntsvæðinu að öðru leyti og gjaldmiðillinn að styrkjast sem væri eins og tvöfalt kjaftshögg fyrir viðkomandi hagkerfi. Norðmenn njóta t.d. góðs af því núna þegar krísa er í olíuviðskiptum að gjaldmiðilinn getur gefið eftir. Það væri hroðalegt fyrir norskt efnahagslíf ef Norðmenn væru á sama tíma með gjaldmiðil annars gjaldsvæðis sem væri að sækja í sig styrk á sama tíma og olíukrísa ríkti í heiminum. Spurningin um upptöku annarrar myntar snýst (Forseti hringir.) að verulegu leyti um það hvort menn eru tilbúnir að gefa frá sér möguleikann til að aðlagast sveiflum í hagkerfinu og langflest ríki hafa komist að þeirri niðurstöðu að það borgi sig ekki.