145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[16:56]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að taka undir með hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur. Þetta vekur nokkra furðu í ljósi þess að hér voru boðuð mikil tíðindi um helgina, að afnám verðtryggingar yrði kynnt eftir helgi. Svo má segja að fjallið hafi tekið jóðsótt og fæðst lítil mús og það í formi þessa frumvarps um takmarkanir á tilteknum lánaflokki verðtryggðra lána. Eini hv. þingmaður Framsóknarflokksins sem hefur tekið til máls í andsvari í þessari umræðu lýsti vonbrigðum sínum með þessa úrlausn mála, að ekki hefði verið gengið lengra. Það er fullkomlega eðlileg krafa að hv. þingmenn fái að vita hvort hv. þingmenn Framsóknarflokksins yfir höfuð styðji þetta mál í ljósi þess að þetta eru svo mikil vonbrigði samkvæmt því sem við heyrum hér í þingsal og lesum um í fjölmiðlum. Málið er mikil vonbrigði. Ég er svo sem ekki hissa á því eftir þær stóru yfirlýsingar sem hér voru látnar falla um afnám verðtryggingar, ekki bara fyrir kosningar (Forseti hringir.) heldur fram eftir öllu kjörtímabilinu.