145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[16:59]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hefur beðið núna ekki mánuðum saman heldur missirum saman eftir því að eiga orðastað við forustumenn Framsóknarflokksins um afnám verðtryggingar sem þau hafa svo sannarlega lofað og verið stóryrt um að væri ekkert mál að framkvæma. Núna þegar málið kemur loksins á dagskrá í formi frumvarps sem hefur verið kallað uppfylling á kosningaloforðum Framsóknarflokksins sjást þau ekki. Þá eru þau ekki einu sinni til viðtals. Þetta er slík vanvirða gagnvart þinginu að það hálfa væri nóg. Réttast væri að gera hlé á þessum fundi, kalla til forustu Framsóknarflokksins og biðja þau að svara fyrir það hvort það að banna fólki á ákveðnum aldri að taka ákveðna tegund lána sé í þeirra huga í alvöru talað afnám verðtryggingar. Er einhver framsóknarmaður hér tilbúinn að tala fyrir því að það sé afnám verðtryggingar að ekki bara banna alfarið einn lánaflokk, nei, bara fólki á ákveðnum aldri að taka (Forseti hringir.) ákveðna tegund lána? Þetta er grín, virðulegi forseti.