145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[17:02]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta er sérkennilegt viðhorf. Hér kemur fram lítil mús sem hefur fæðst úr einhverju stærsta kosningaloforði allra tíma sem var afnám verðtryggingar sem átti ekki að vera neitt mál. Menn gætu gert þetta eins og hendi væri veifað, sögðu framsóknarmenn í aðdraganda kosninga. Nú eru aftur að koma kosningar og það sem boðið er upp á frá þessari ríkisstjórn er þessi litla mús sem farið hefur verið yfir. Telja þá framsóknarmenn að þeir þurfi ekkert að koma sérstaklega í 1. umr. af því að það eigi að redda þessu í nefndinni?

Við 1. umr. leggjum við línurnar um það hvernig vinna nefndarinnar verður. Hér eigum við að ræða hinar stóru pólitísku línur í málinu. Það gengur ekki að þingmenn hlaupist með þessum hætti undan því að svara spurningum um þetta mikla hagsmunamál heimilanna í landinu.