145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[17:06]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Já, það vekur undrun, þessi litla umræða um þetta mál, en kannski ekki þegar horft er til forsögunnar. Ég vil rifja það upp að í janúar 2014, eftir fyrstu skil starfshóps um afnám verðtryggingar, spurði ég hæstv. þáverandi forsætisráðherra og formann Framsóknarflokksins út í sýn hans á afnám verðtryggingar og hvort hann teldi mögulegt að afnema verðtrygginguna á kjörtímabilinu. Það stóð ekki á svörum. Hann sagði bara: Já, það er mögulegt að afnema verðtrygginguna, og átti ekki von á öðru. Raunar spurði ég hæstv. fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins að því sama skömmu síðar í janúar 2014. Þá komu nú aðeins önnur svör.

Mér sýnist á þessu máli að það sé ljóst að Framsóknarflokkurinn hafi gefið eftir þetta stefnumál sitt í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Eftir stendur einhver einkennilegur blendingur af máli þar sem fyrst og fremst eru lagðar til takmarkanir á einn lánaflokk, þ.e. hin frægu Íslandslán, 40 ára verðtryggðu lánin, þar sem sagt er: „Óheimilt er að veita neytendalán til lengri tíma en 25 ára sé það verðtryggt og með jafngreiðslufyrirkomulagi.“ En síðan eru taldar upp undanþágur. Þar kemur fram að veita má 40 ára lán til þeirra sem eru yngri en 35 ára, veita má 35 ára verðtryggt lán til þeirra sem eru á aldrinum 35–39 ára og 30 ára verðtryggt jafngreiðslulán til lántaka sem eru 40–44 ára á lántökudegi. En síðan er sett ákveðið tekjuþrep líka, þ.e. væntanlega ef aldursskilyrðin eru ekki uppfyllt. Það nemur 500 þús. kr. í heildartekjur hjá hjónum á mánuði, þ.e. skattskyldar tekjur næstliðins árs nemi 3,5 millj. kr. eða lægri fjárhæð hjá einstaklingi eða 6 millj. kr. eða lægri fjárhæð ef lántakar eru fleiri en einn. Þetta eru mjög lág tekjumörk sem eru sett á lántaka sem eru yfir 44 ára aldri, mjög lág tekjumörk og undir þeim lágmarkslaunum sem til að mynda verkalýðshreyfingin hefur verið að berjast fyrir, að þau fari upp í 300 þús. kr. á mánuði.

Á sama tíma, og það er umhugsunarefni, eru 85% nýrra lána á fyrstu sex mánuðum ársins verðtryggð. Af 39,3 milljörðum sem hafa verið lánaðir út á fyrstu sex mánuðum ársins eru 33,3 milljarðar í verðtryggðu formi. Þrátt fyrir umræðuna um verðtryggingu held ég að flestir séu sammála um að afleiðingar verðtryggingar sýni fyrst og fremst stöðu efnahagsmála fremur en nokkuð annað, þ.e. verðtryggingin er nokkurs konar mælitæki á stöðu efnahagsmála. Við finnum (Gripið fram í.) mjög fyrir verðbólgunni þegar við erum með verðtryggð lán, en í ljósi þess, og væntanlega vegna þess, að verðbólga hefur verið lág það sem af er ári sjáum við þetta val Íslendinga, þeir velja núna fremur verðtryggð lán og treysta því lánsformi betur. Þetta er auðvitað ekki algild þróun. Þetta er þróunin í ár. Þegar farið var að bjóða óverðtryggð lán haustið 2011 nutu þau talsverðra vinsælda. Eftir því sem ég man þá varð talsverð aukning í útlánaþróun óverðtryggðra lána allt fram til 2013 en síðan hefur hlutur verðtryggðra lána aukist og er núna, eins og ég segi, 85% nýrra lána. (VilB: Af hverju heldurðu að það sé, virðulegi þingmaður?) Þingmaðurinn verður bara að fá að hlusta á ræðu mína í rólegheitunum og eiga við mig samtal innan efnahagsnefndar um þetta mál. (Gripið fram í: … andsvar.)

Herra forseti. Það sést á þessu að lántakar velja verðtryggð lán. Þá er auðvitað umhugsunarefni að í stað þess að koma fram með efnahagsáætlun sem miðar að því að afnema verðtrygginguna eins og sagt var að stæði til að gera kemur ríkisstjórnin fram með mál um að takmarka val lántakenda. Nú er ég algerlega fylgjandi því að upplýsingar séu, eins og hér hefur líka verið rætt, skýrar og aðgengilegar og lántakendum sé gerð grein fyrir þeirri áhættu sem felst annars vegar í verðtryggðum lánum og hins vegar óverðtryggðum. En staðreyndin er sú, og ég er svo sem ekki að fara með neinar nýjar staðreyndir, þetta hefur komið skýrt fram í máli þeirra hv. þingmanna sem hér hafa talað, að fyrir tekjulágt fólk sem vill eignast eigið húsnæði hefur helsti aðgöngumiði þess að þeirri vegferð verið 40 ára jafngreiðslulán af því að greiðslubyrðin hefur verið lægri og jafnari og ekki stjórnast af breytilegu vaxtastigi á hverjum tíma.

Það er auðvitað ástæðan fyrir þessum lánum. Þau koma ekkert út úr tóminu. Hér hefur verið afar óskilvirkur leigumarkaður, leigumarkaður sem er eiginlega ekki boðlegur á neinum grunni hér á höfuðborgarsvæðinu, leigumarkaður þar sem fólk býr við mikið óöryggi. Við sjáum æ fleiri dæmi, við þingmenn, um fólk á miðjum aldri jafnvel sem býr í leiguhúsnæði en þarf að flytja inn á börnin sín yfir sumartímann meðan íbúðin er leigð út til ferðamanna. Ég er með nokkur dæmi um það. Samt er þetta fólk að borga himinháa leigu, kannski helming af ráðstöfunartekjum sem er ekki óalgengt miðað við leiguverð á höfuðborgarsvæðinu. Auðvitað er það eðlilegt að fyrir þá sem vaða ekki í peningum og eru ekki með háar tekjur að velja fremur að taka verðtryggð lán til 40 ára og vera afar lengi að borga upp húsnæðið sitt en fá um leið ákveðið öryggi, bæði þegar kemur að búsetu og hins vegar að greiðslubyrði.

Mér finnst þetta algerlega ófullnægjandi aðgerð til þess að geta sett kross í boxið „afnám verðtryggingar“, sem er nokkuð augljóslega það sem þetta frumvarp á að vera, þetta frumvarp á að gera hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum stjórnarflokkanna kleift að segja: Ja, við höfum nú dregið aðeins úr vægi verðtryggðra lána. Við erum að stíga fyrsta skrefið í átt að afnámi verðtryggingar. En hvað er í raun og veru verið að gera? Það liggur engin áætlun fyrir, alla vega ekki sem við höfum fengið að sjá. Það var engin áætlun kynnt í Hörpu á mánudaginn heldur eru bara lagðar til takmarkanir, aldurstakmarkanir, á verðtryggð lán til 40 ára. (SII: Verðtryggð jafngreiðslulán.) Á verðtryggð jafngreiðslulán til 40 ára. Þetta er bara til þess að geta sagt: Við gerðum eitthvað. Og það má náttúrlega ekki vera forsenda lagasetningar á þingi þegar hv. þingmenn hafa tölurnar fyrir framan sig og sjá hvernig þær líta út, 85% nýrra lána eru verðtryggð. Það má ekki vera forsenda lagasetningar að hægt sé að segja: Eitthvað var gert. Ef ætlunin er að afnema verðtrygginguna þarf að horfa heildstætt yfir sviðið og hafa heildstæða áætlun til þess að afnema hana. Það má ekki horfa bara á einn lánaflokk, það þarf að horfa á fjármagnið sem liggur hinum megin sem er líka botnverðtryggt. Það þarf að horfa á vaxtastig í landinu og hvernig menn sjá það þróast. Það þarf að hafa heildstæða framtíðarsýn. Um þetta var talað bæði fyrir kosningarnar 2013 og svo lengi sem fram til janúar 2014 sem tiltölulega einfalt mál. Ég vitna í fræga grein hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem mig minnir að hafi heitið Afnám og leiðrétting, einfalt mál. Hv. þingmenn Framsóknarflokksins sem eru mættir í salinn leiðrétta mig ef ég fer rangt með, því þetta er eftir minni.

Ég á bágt með að sjá að til þess að geta sagst hafa gert eitthvað sé þetta rétta leiðin. Það tengist ekkert hvaða skoðun við höfum á verðtryggingunni. En ég á bágt með að sjá að rétta leiðin sé að setja takmarkanir á tiltekinn lánaflokk sem er sá lánaflokkur sem tekjulægra fólk hefur getað nýtt sér til að koma sér upp húsnæði og leggja það til núna, því að þó að margt ágætt sé í þeim lögum um húsnæðismál sem við unnum að í góðri sátt í þinginu í vor og miða að því að byggja upp virkan leigumarkað þá taka þau tíma. Það mun taka tíma að hrinda þeim lögum í framkvæmd. Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra sat áðan hjá við afgreiðslu ríkisfjármálaáætlunar. Kannski vegna þess að þeir stofnstyrkir til uppbyggingar leiguhúsnæðis sem gert er ráð fyrir til framtíðar af hálfu ríkisstjórnarinnar eru alls ekki nægjanlegir til að mæta þeirri þörf sem er t.d. á höfuðborgarsvæðinu fyrir uppbyggingu leiguhúsnæðis. Kannski er það ein af ástæðunum fyrir því að hæstv. ráðherra sat hjá í þessari atkvæðagreiðslu. Það mun taka tíma að byggja upp leiguhúsnæði sem raunverulegan valkost. Á meðan það er ekki gert, á meðan við horfum upp á að fólk eigi von á að leigan hækki jafnvel yfir nótt, án nokkurrar viðvörunar, á meðan fólk sem hringir í mig lýsir því hvernig því er sagt upp leigu á aðfangadegi og finnur ekki neitt leiguhúsnæði í staðinn, á meðan staðan er þannig á leigumarkaði og við sjáum hækkandi fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu, ónógt framboð og ungt fólk sem við vorum að tala um áðan sem á mjög erfitt með að brjótast inn á þennan markað, þá sé ég ekki alveg að þessi leið þjóni neinum raunverulegum tilgangi öðrum en þeim sem ég nefndi í upphafi míns máls, að geta sett X í box. Að geta sagt: Við gerðum eitthvað.

Ég er ekki hissa á því að hv. þingmenn Framsóknarflokksins séu ekkert sérstaklega sáttir. Þetta er auðvitað fjarri því sem þeir hafa talað fyrir. Og mér er til efs þegar ég skoða frumvarpið sem við erum að fara að fjalla um í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að það sé endilega mikill — ja, ég veit hreinlega ekki hvaða breytingum málið ætti að taka í ljósi þess að það er nokkuð augljóst þeim sem á horfir að ekki er eining um það meðal stjórnarflokkanna í hvaða átt eigi að stefna í þessu máli. Það kom raunar fram svo snemma sem í janúar 2014, eins og ég gerði að umtalsefni í upphafi minnar ræðu, þegar ég spurði forsvarsmenn beggja flokka um afstöðu þeirra til afnáms verðtryggingar.

Ég velti fyrir mér hvort ekki sé rétt að horfa frekar á þetta mál heildstætt og greina hvaða áhrif þessi takmörkun kann að hafa, sérstaklega fyrir tekjulágt fólk. Það er ekki nema von að ég sé tortryggin þegar þessi ríkisstjórn kemur fram með mál sem lúta að fasteignakaupum þegar við horfum á það hvernig leiðréttingin t.d. skiptist milli tekjuhópa, hvernig séreignarsparnaðarleiðin kemur ólíkt út fyrir tekjuhópa. Hvernig kemur þetta mál út fyrir ólíka tekjuhópa? Ég held að það sé alveg á hreinu að þetta er enn ein leiðin til að þrengja að tekjulægra fólki á húsnæðismarkaði, markaði sem er mjög þungur í dag, mjög erfiður, og við ættum raunar fremur að vera að ræða þann bráðavanda sem leysist ekki strax þrátt fyrir þessi ágætu húsnæðismál sem ég nefndi áðan. Það mun þurfa meira til.

Ég veit eiginlega ekki alveg hvert er verið að stefna með þessu máli. Ég átta mig ekki á því hvaða breytingar hv. þingmenn vonast til að verði gerðar. Og ég sé ekki að þetta sé í raun og veru neitt annað en til að geta sagt: Ja, það voru stigin skref í átt að afnámi verðtryggingar. Þetta er slíkt plagg, til þess að geta sagt það. En það þarf þá að huga að afleiðingunum fyrir þá hópa sem munu lenda utan garðs í þessu máli.