145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[17:21]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu, frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum, er afskaplega stutt, ein grein fyrir utan gildistöku. Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni hér og nú í upphafi ræðu minnar að ég hef ýmsar efasemdir um þetta framlag til lánamarkaðar. Þetta frumvarp tengist reyndar öðru frumvarpi sem var rætt hér fyrr í dag og ég sleppti að ræða enda kemur málið til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem ég á sæti og ég mun ræða það þar og afla gagna og spyrja spurninga.

Það fyrsta sem ég vil segja er að í báðum frumvörpum er á ferðinni einhver hugtakaruglingur. Ég veit ekki um nokkur einustu lán sem ekki eru verðtryggð. Á íslenskum lánamarkaði eru á boðstólum lán með breytilegum vöxtum sem taka breytingum miðað við mælingu á vísitölu neysluverðs og hugsanlegt að svokallaðir raunvextir breytist eitthvað eftir viðmiðun við hugsanlega ávöxtun á ríkisskuldabréfum. Svo eru önnur lán á boðstólum sem taka breytingum á vöxtum miðað við ákvörðun Seðlabanka á stýrivöxtum. Stýrivextir Seðlabanka eru alltaf ákvarðaðir út frá verðbólgu. Það er ósköp einfalt mál. Annars vegar eru svokallaðir verðtryggðir vextir, verðtrygging miðað við hlutlæga mælingu, og hins vegar er verðtrygging miðað við ágiskun og væntingar Seðlabanka. Hvort vilja menn ágiskun eða mælingu?

Þessi frumvörp eru víst afrakstur vinnu einhverra sérfræðinga. Ég las álit þessara sérfræðinga og verð að segja að ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Ég ætla mér ekki þá dul að ég sé einhver sérfræðingur í vaxtamálum eða fjármálum. Ég er hins vegar búinn að starfa við þetta í yfir 40 ár, reyndar 43 ár ef ég tel allt saman, með starfi, námi, kennslu og skrifum. Margt af þessu hefði fengið falleinkunn hjá mér sem kennara en hér er ég ekki í hlutverki kennara. Ég hef orðið að sitja undir ýmsum missmekklegum athugasemdum, eins og hinn geðþekki hæstv. forsætisráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson kallaði mig varðhund verðtryggingar. Ég er enginn varðhundur nokkurs skapaðar hlutar. Ég tel hins vegar að menn eigi að reikna vexti af einhverri skynsemi. Í þessu máli á allt í einu að fara að banna lengri lán en til 25 ára nema til þeirra sem eru yngri en 35 ára. Síðan eru þeir sem eru 35–39 … (Gripið fram í.) jú, það styttist um fimm ár. Þeir mega taka það til 35 ára. Þeir sem eru 40–44 ára til 30 ára. Sjálfur er ég 64 og það á að meina mér að taka lán samkvæmt samkomulagi við bankann minn. Ég skil ekki þessa mannréttindaskerðingu. Það kemur ykkur hv. þingmönnum ekkert við hvernig ég sem við minn banka. Ef það verður samkomulag milli mín og míns banka um hvernig ég tek lán kemur það engum við. Ég þarf bara að standa í skilum við minn banka og það er einkamál mitt og bankans.

Síðan ætla ég að segja að ég hef af álíka áfergju kannað vanskilafólk og komist að því að rauðhærðir karlmenn, dökkhærðar konur og þeir sem eru freknóttir á upphandleggjum eru sennilega allir vanskilafólk. Þetta er álíka öflug og vel undirbyggð fullyrðing og þessi frumvarpsgrein.

Ég segi ósköp einfaldlega að lögin um vexti og verðtryggingu eru tiltölulega einföld og skila sínu hlutverki býsna vel. Síðan koma til ýmis stærðfræðilögmál eins og annuitet, jafngreiðsla, sem gera lán tiltölulega auðgreiðanlegt fyrir þá sem vilja sitja í leigu sem er tiltölulega stöðug. Þetta er leiga. Hér er talað um eignamyndun en hins vegar er engin eignamyndun vegna þess að maður kaupir eign, það er eignin, það verður hins vegar skuldalækkun og hún byrjar hægt og síðan gengur hún hægt og bítandi eftir.

Meðan ég hef fylgst með umræðunni í þessu máli hefur enginn spurt grundvallarspurningarinnar: Hvað kostar fjármagnið? Ég er búinn að bera saman lán sem eru tekin 2010, 2011 og 2012 og framreikna þau, svokölluð verðtryggð lán og svokölluð óverðtryggð lán, og finna út kostnaðinn af þeim. Getur verið að hinn upplýsti lántaki hafi tekið lán miðað við mínar niðurstöður, þ.e. tekið þau lán sem eru ódýrari á þann mælikvarða sem er einn og réttur, við mælikvarða við kostnað á lántöku, þ.e. hver ávöxtunin sé á þessum lánum? Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir rakti það áðan og ég spurði hana úr sal hvort hún vissi af hverju þessi lán væru tekin. Hún gat ekki svarað því en ég ætla að upplýsa hana hér og nú að það er vegna þess að lánin eru ódýrari. Vextir eru afgjald (KJak: Ég var ekkert að …) fyrir fjármagn. Undir venjulegum kringumstæðum eru raunvextirnir, sem eru þá tímaþátturinn, sú fórn sem lánveitandinn þarf að inna af hendi og sú fórn sem lántakinn er reiðubúinn að borga fyrir. Annað er t.d. vegna tapsáhættu vegna verðbreytinga þannig að lánveitandinn fái til baka það sem hann lánaði. Það kann að vera að raunvextir hérna séu býsna háir. Ég hef t.d. spurt af hverju vextir af lífeyrissjóðslánum séu u.þ.b. 3,6% raunvextir en vextir af bankalánum 3,9%. Skyldi það vera vegna þess að hér í þessum sal var samþykktur svokallaður bankaskattur? Neytendur borga þann skatt.

Ég ætla að koma að einu orði sem er aldrei skilgreint hér almennilega, Íslandslánum. Íslandslán eru 40 ára jafngreiðslulán. Ég hef ekki farið um víðan heim og spurt hvernig lán eru veitt og til hversu langs tíma en það vill til að þessi lán, jafngreiðslulán til 40 ára, eru býsna nærri ákveðinni tegund lána sem viðgangast víða um heim, ekki bara í hinum vestræna heimi heldur líka annars staðar þar sem vaxtataka er óheimil. Þetta er mjög nærri því sem heitir Islamic Banking, svo ég leyfi mér að sletta á ensku, með leyfi virðulegs forseta.

Ég hef spurst fyrir um það líka hvað sé svona skaðlegt við þessi lán. Ef á að nota hér einhver míkrólán til að miðla peningamálastefnu Seðlabankans — peningamálastefna Seðlabankans mun aldrei virka á nokkurn skapaðan hlut nema styttri enda vaxtarófsins. Það er aldrei hægt að hafa áhrif á seinni hlutann enda eru 40 ára jafngreiðslulán mjög stöðug og valda að öðru jöfnu ekki efnahagssveiflum, svo framarlega sem lántaki getur tekið örlitlar sveiflur eins og vænta má að gert sé ráð fyrir í greiðslumati. Menn ætla sennilega að ná fram frumvarpinu um stuðning við kaup á fyrstu íbúð, það er hægt að ná því fram í svokölluðum verðtryggðum lánum á sama hátt með því að heimila fólki að greiða aukaafborganir af lánum. Samkvæmt lögum um neytendalán er það hins vegar ekki hægt. Það er heimilt að greiða 1 milljón, skilst mér, í bankalánum, lífeyrissjóðirnir eru miklu frjálslyndari og sennilega er vandamálið þar. Hér er verið að hrekja fólk í óhagstæðari lán og nota til þess skattalega hvata. Auðvitað styður maður öll eðlileg ráð til að hjálpa fólki við að kaupa fyrstu íbúð. Hins vegar er sárt að segja það hér og nú, og enginn hefur talað um frekar en kostnað við lántöku, að sennilega vantar 2.500–3.000 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Menn geta hnikað til eftirspurn og lánsfé, aukið lánsfé og aukið eftirspurn eftir íbúðum en ef framboðið vex ekki gerist bara eitt, það sem hefur gerst frá aldamótum, íbúðaverð hefur hækkað um heil 60% umfram neysluverðsvísitölu. Skyldi það vera vegna þess að það er ekki framboð á eignum? Menn geta komið með bunka af frumvörpum og átt við löggjöf en meðan framboð á nýjum íbúðum, á jaðrinum sem ég kalla, nei, ég er eiginlega ekki kominn að því, þetta framboð er til að svara eftirspurn vegna aðflutnings á fólki vegna breyttra búskaparhátta. Þegar ég reiknaði út fyrir nokkrum árum hvernig íbúafjöldi á móti íbúðafjölda þróaðist fækkaði í nýjum íbúðum sem leiddi til meiri þarfar. Þetta frumvarp greiðir ekki úr þeim vanda. Eins og ég sagði áðan geðjast mér ekki sú mannréttindaskerðing sem ég verð fyrir hérna og allmargir aðrir. Ég held að þetta sé Íslandsmet í lögum um — reyndar voru ekki til nein lög um vexti og verðtryggingu nema gömlu okurlögin. En aldursstýring á lántöku, bíðið nú við, má ég bara ekki semja við minn banka? Fjármál byggjast á einu orði, trausti. Ef það er ekki traust bætir svona löggjöf ekki úr.

Þessu máli verður væntanlega vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og þar mun ég spyrja ýmissa spurninga og benda á ýmislegt sem betur má fara í þessu.

Ég ætla að láta máli mínu lokið að sinni, virðulegi forseti.