145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[17:50]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og umfjöllunina um verðtrygginguna. Hv. þingmaður rakti ágætlega hvernig það að koma verðtryggingunni á á sínum tíma var efnahagsaðgerð til að bregðast við óstöðugleika og á sama hátt hvernig verðtryggingin hefur smátt og smátt fengið meira og meira vægi en að nú verðum við að fara að taka skref til að draga úr vægi verðtryggingarinnar. Á vegum ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur verið unnið að undirbúningi þess að hægt verði að draga úr vægi verðtryggingar, fyrst með skipan sérfræðingahóps sem skilaði skýrslu í nóvember 2013.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála þeim leiðum sem koma fram í niðurstöðum sérfræðingahópsins. Hv. þingmaður kom reyndar inn á aðrar mögulegar leiðir en er verið að fara hér þannig að ég beini þeirri spurningu til hans hvort hann sé sammála þeim leiðum sem raktar eru í skýrslu sérfræðingahópsins og er m.a. komið inn á í greinargerð með frumvarpinu. Og hvaða aðrar leiðir telur hann annaðhvort vænlegri eða koma til greina samhliða því sem lagt var til í þessari skýrslu?