145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[17:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er athyglisvert og hv. þingmaður rifjar það upp að nefndir á vegum ríkisstjórnarinnar skiluðu niðurstöðum svo snemma sem í nóvember 2013. Ég hélt að eitthvað af þessu hefði komið líka á árinu 2014 en sama er, nú er kominn ágúst 2016 og þá loksins er þetta að birtast. Ef ég man rétt er þetta bara það allra minnsta sem nefndin þar lagði til sem eitt af skrefunum. Þetta er slíkur mínimalismi að það hálfa væri nóg.

Er ég sammála niðurstöðum nefndarinnar? Sammála og ekki sammála, niðurstöður hennar komu mér ekki á óvart vegna þess að ég hafði aldrei trú á því að innstæður væru fyrir þessu tali manna um að það væri bara hægt að smella fingri og afnema verðtryggingu sisona. Ég hef aldrei leyft mér að tala af slíku ábyrgðarleysi. Ég var ekkert hissa á því þó að meiri hluti nefndarinnar kæmist að þeirri niðurstöðu að slíkt væri óraunhæft en legði til einhver skref í þá átt að reyna að draga eitthvað úr vægi verðtryggingar. Þar af leiðandi kom niðurstaðan mér ekki á óvart. Ég hefði viljað sjá greiningu á fleiri kostum. Ég hefði viljað sjá skoðaða alla möguleika og þá þess vegna útilokaða þá möguleika í þessu sem ekki reyndust viðráðanlegir eða færir.

Ég nefndi t.d. hugmyndina um þaksett lán sem vel hefði mátt hugsa sér að yrði bara í boði sem einn af valkostunum fyrir fólk. Ef menn vilja gera skurk í því að draga umtalsvert úr umfangi verðtryggingarinnar hallast ég að því að það verði að gera með því að bjóða mjög hagstæð skilyrði á umbreytingum verðtryggðra lána í óverðtryggð. Það mun ekki gerast nema menn geti með einhverjum hætti boðið hagstæð skilyrði í þeim efnum. Hið sama á auðvitað við um töku nýrra lána. Þá verður að vera hægt að sýna mönnum fram á að það sé (Forseti hringir.) beinlínis hagstætt og öruggt að taka óverðtryggð lán og að greiðslubyrðin af þeim framan af sé ekki óviðráðanleg. (Forseti hringir.) Annars er bara tómt mál að tala um þetta.