145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að ræða tillögur vinnuhóps á vegum innanríkisráðuneytisins sem vann að því að finna lausnir til þess að sporna gegn ólöglegu niðurhali á internetinu. Þær eru um margt mjög áhugaverðar. Þar er m.a. gengið út frá því að hægt sé að koma í veg fyrir ólöglegt niðurhal með því að skjóta inn svokölluðum pop-up glugga þegar fólk reynir að komast inn á ákveðnar síður. Þetta hefur mjög alvarlegar afleiðingar. Það mun m.a. hafa í för með sér og mun í raun koma í veg fyrir ákveðna friðhelgi einkalífsins á internetinu. Til þess að þetta verði í raun og veru að möguleika þá er tvennt í stöðunni, það er annaðhvort að vinna með þessum ólöglegu síðum og athuga hvort þær vilji sjálfar koma upp þessum pop-up gluggum eða þá að krefja netþjónustufyrirtæki til þess að vera með eins konar kóðainnskot, en það er nákvæmlega sama tækni sem vírusar og önnur spilliforrit byggjast á. Í raun er því með þessum tillögum verið að leggja til að ríkið hakki netnotkun fólks.

Til þess að vera með þetta kóðainnskot þá þarf að stunda aktívt eftirlit með allri netnotkun fólks, já, virðulegi forseti, allri netnotkun fólks, til þess að ákveða hvort eigi að skjóta inn umræddum kóða. Það er hægt að koma í veg fyrir þessa spillingu sem er verið að stinga upp á með mjög auðveldri dulkóðun, https, sem mun koma í veg fyrir að þetta kóðainnskot komi inn, eða með því að gera nýja árás á samskipti fólks sem felst í því að afdulkóða dulkóðunina. Þetta gerir öryggi á internetinu að engu. Þetta gefur öðrum færi á að skjóta inn öðrum spillikóða. Þetta afnemur friðhelgi einkalífs fólks. Þetta setur vefverslanir og netbanka í mjög alvarlega stöðu. (Forseti hringir.) og þetta er gífurlega kostnaðaraukandi. Þannig að ég skil einfaldlega ekki, virðulegi forseti, hvernig fólki dettur þetta í hug (Forseti hringir.) Það mætti vera með einhvers konar fræðimenn á sviðum tölva þegar stungið er upp á svona löguðu í nefndum.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna