145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þessi ríkisstjórn er ekki í andarslitrunum, hún er hrokkin upp af. Það sjá allir landsmenn. Þetta útspil hæstv. félagsmálaráðherra í gær að standa ekki með fjármálaáætlun ríkisins til næstu fimm ára og stefnu ríkisstjórnarinnar kom ekki á óvart, en það kemur allt of seint. Ég tek undir orð formanns Öryrkjabandalagsins að hæstv. félagsmálaráðherra hefur staðið með öllum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar þar til nú og hefur haft fullt tækifæri til þess að standa upp, greiða atkvæði á móti eða ganga úr þessari ríkisstjórn. Hæstv. ráðherra hefur staðið með því að færa ekki laun aldraðra og öryrkja að lágmarkslaunum. Hún hefur staðið að því að hækka matarskattinn sem bitnar á þeim sem minna hafa á milli handanna. Hún hefur staðið að því að breyta skattkerfinu og afnema þrepaskiptingu sem hefur gagnast þeim tekjulægri. Svona mætti áfram telja. Hún hefur staðið að skuldaleiðréttingu sem gagnast þeim tekjuhærri, flata skuldaleiðréttingu.

Ég ætla ekki að segja að hæstv. félagsmálaráðherra hafi ekki haft góðan vilja, en menn verða líka að standa með sjálfum sér, ekki bara korteri í kosningar. Hæstv. ráðherra hefur verið með í fanginu frumvörp til húsnæðismála og greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu. Það var ekki fyrr en núna á vorþingi að hægt var að koma þeim málum í gegn með aðstoð stjórnarandstöðunnar fyrst og fremst að laga málið. Svo ég held að það sé ekki eftirspurn eftir svona sýndarmennsku. Hæstv. ráðherra sem er félagslega sinnuð hefði fyrir löngu (Forseti hringir.) átt að yfirgefa þetta skip ríkisstjórnarinnar sem hugsar ekki um annað en aðgerðir í þágu þeirra efnameiri.


Tengd mál