145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[11:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál með síðari breytingum. Frumvarpið er liður í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta sem kynnt var opinberlega 8. júní á síðasta ári. Lögin eru nr. 87/1992, með síðari breytingum. Frumvarpið er liður í þriðja skrefinu í þeirri áætlun en fyrsta skrefið var eins og kunnugt er að takast á við þann vanda sem slitabú fallinna fjármálafyrirtækja sköpuðu og annað skrefið sneri að lausn á hinum svokallaða aflandskrónuvanda.

Í þessum áfanga er, líkt og í fyrri skrefum, tekið mið af ráðleggingum sérfræðinga og reynslu annarra þjóða. Þannig hefur við undirbúning frumvarpsins m.a. verið stuðst við almenna ráðgjöf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að fjármagnshöftin verði losuð í skipulegum áföngum og í varfærnum skrefum þar sem tekið er tillit til þess álags sem getur skapast á lausafjárstöðu fjármálakerfisins og greiðslujöfnuð. Eins og í fyrri þrepum er meginmarkmiðið að stuðla að losun fjármagnshafta með efnahagslegan stöðugleika og almannahag að leiðarljósi.

Almennt er talið að nú séu aðstæður til frekari losunar fjármagnshafta á Íslandi að flestu leyti ákjósanlegar. Má þar t.d. nefna vaxtamun gagnvart útlöndum, meiri efnahagsbata en í viðskiptalöndunum, lága verðbólgu og fjármagnsinnstreymi vegna þjónustuviðskipta með tilheyrandi gengishækkun krónunnar, en allt eru þetta þættir sem eru til þess fallnir að draga úr hættu á almennum fjármagnsflótta.

Þá hefur viðnámsþróttur alls þjóðarbúsins aukist, auk þess sem verulegar umbætur hafa verið gerðar á umgjörð hagstjórnar og því regluverki sem ætlað er að stuðla að þjóðhagslegum og fjármálalegum stöðugleika. Þessar aðstæður og fyrri aðgerðir varðandi slitabú og aflandskrónur gera stjórnvöldum nú kleift að taka tiltölulega stórt skref í átt að fullri losun fjármagnshafta.

Efni frumvarpsins gengur að meginstefnu út á að veita einstaklingum og lögaðilum, bæði innlendum og erlendum, auknar heimildir til fjármagnshreyfinga á milli landa í erlendum gjaldeyri og til gjaldeyrisviðskipta. Lagt er til að þetta verði gert í tveimur áföngum sem ég mun nú gera grein fyrir í stórum dráttum en of langt mál yrði að nefna hverja einustu rýmkun sem felst í frumvarpinu.

Ég ætla að byrja á því að fara aðeins yfir fyrsta skref losunar samkvæmt frumvarpinu. Í 1.–5. og 8.–11. tölulið 1. gr. frumvarpsins er að finna rýmkun af ýmsu tagi og má þar nefna í dæmaskyni að hvers kyns greiðslur í tengslum við vöru og þjónustuviðskipti, sem háðar hafa verið takmörkunum, verða frjálsar, til að mynda endurgreiðslur og kaup á farartækjum. Hið sama gildir um fjármagnshreyfingar vegna framfærslu erlendis. Þá er jafnframt lagt til að fjármagnshreyfingar vegna greiðslu skatta og opinberra gjalda, málskostnaður, slysa- og skaðabætur til erlends aðila verði gerðar frjálsar.

Í 6. tölulið 1. gr. og ákvæði til bráðabirgða er lagt til að fjárfesting í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri, öðrum peningakröfum í erlendum gjaldeyri og fyrirfram- og uppgreiðsla erlendra lána verði frjáls upp að ákveðnu fjárhæðarmarki sem lagt er til að verði 30 millj. kr. við gildistöku laganna en hækki upp í 100 millj. kr. um næstu áramót.

Þetta er veruleg breyting, veruleg opnun.

Í 7. tölulið 1. gr frumvarpsins er lagt til að við gildistöku frumvarpsins verði bein erlend fjárfesting innlendra aðila ótakmörkuð. Er hér um að ræða eitt veigamesta ákvæði frumvarpsins þegar kemur að því að meta, að því marki sem það er hægt, hversu mikil tilslökun felst í einstökum ákvæðum. Þetta er stórt og mikilvægt skref við losun fjármagnshafta. Ekki er lagt til að nein fjárhæðarmörk gildi varðandi þessar fjárfestingar en þó er lagt til að þær verði háðar staðfestingu Seðlabanka Íslands, eins og segir í greinargerð, fyrst og fremst til að ganga úr skugga um að í reynd sé um beina erlenda fjárfestingu að ræða.

Varðandi fyrra atriðið, fjárfestingu í fjármálagerningum í erlendum gjaldeyri, má geta þess að þegar komið verður upp í þau fjárhæðarmörk sem gilda frá og með áramótum eru afar litlar líkur á að margir innlendir aðilar lendi í þakinu.

Í 8. gr. frumvarpsins er lagt til að dregið verði úr skyldu innlendra aðila til að skila erlendum gjaldeyri hingað til lands. Sú tilslökun á skilaskyldu sem lögð er til í ákvæðinu rímar við þá rýmkun sem lögð er til í 1. gr. frumvarpsins. Þannig er m.a. lagt til að skilaskylda nái ekki til fjármuna vegna lántöku einstaklinga hjá erlendum aðilum til kaupa á fasteign eða farartæki erlendis eða fjármuna vegna lántöku aðila sem nýtt er til annarra fjárfestinga erlendis.

Í fyrsta áfanga frumvarpsins eru einnig lagðar til breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands og lögum nr. 37/2016, um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

Lagt er til að heimildir Seðlabanka Íslands til upplýsingaöflunar verði auknar. Þessar breytingar eru taldar nauðsynlegar til að styrkja eftirlitshlutverk Seðlabankans með fjármagnshreyfingum á milli landa og innlendum gjaldeyrismarkaði. Þetta er lagt til í því skyni að gera bankanum betur kleift að rækja það meginhlutverk að stuðla að verðlags- og fjármálastöðugleika.

Þær breytingar sem lagðar eru til á lögum nr. 37/2016 eru smávægilegar og er þeim ætlað að stuðla að meira samræmi í þeirri löggjöf.

Þá sný ég mér að öðru skrefi losunar samkvæmt frumvarpinu. Lagt er til að annað skref að losun fjármagnshafta verði stigið 1. janúar 2017 eins og þegar er fram komið. Á þeim tíma er gert ráð fyrir að auk fjárfestinga í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri, öðrum peningakröfum í erlendum gjaldeyri og fyrirfram- og uppgreiðslu erlendra lána verði innstæðuflutningur jafnframt heimilaður innan fjárhæðarmarka og lagt til að verði 100 milljónir til að byrja með. Þá verður skilyrðið um innlenda vörsluaðila erlendra verðbréfafjárfestinga jafnframt fellt niður innan heimildarinnar. Þar með munu innlendir og erlendir aðilar geta flutt innstæður og verðbréf til og frá landinu og átt viðskipti með verðbréf erlendis innan þeirra marka. Hvað ferðamannagjaldeyri varðar er lagt til að heimildin til kaupa á honum verði strax rýmkuð við gildistöku laganna en að um áramót falli brott skilyrði um framvísun farmiða í viðskiptabanka við kaup á ferðagjaldeyri og að kaup á honum falli innan fyrrnefnds 100 millj. kr. hámarks.

Í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að Seðlabankanum verði falið að endurskoða fjárhæðarmörk laganna fyrir 1. júlí 2017 og að bankanum verði heimilt að hækka mörkin, ef aðstæður leyfa, með reglum.

Sú rýmkun sem lögð er til í frumvarpinu felur í sér að nokkur af ákvæðum laga um gjaldeyrismál munu falla brott í heild sinni og önnur þarf að samræma þeim lagatexta sem eftir stendur.

Verði frumvarpið að lögum verða takmarkanir sem styðja við skilvirka framkvæmd fjármagnshafta enn til staðar ásamt því að ýmis ákvæði standa óbreytt, t.d. þau sem lúta að viðskiptum með íslenskar krónur, að lánveitingum og lántökum, veitingu ábyrgða, afleiðuviðskiptum með krónu, auk þess sem enn þá verður mælt fyrir um skilaskyldu erlends gjaldeyris að meginstefnu til þótt dregið verði úr henni.

Gert er ráð fyrir að stjórnvöld muni snemma á næsta ári endurmeta aðstæður til hækkunar fjárhæðarmarka ásamt því að huga almennt að næstu skrefum við fullt afnám hafta. Í þeirri vinnu þarf m.a. að leggja mat á hvaða heimildir eru nauðsynlegar til frambúðar fyrir stjórnvöld til að bregðast við ef hætta er á að fjármagnsflæði raski stöðugleika í gengis- og peningamálum.

Varðandi lífeyrissjóði er gert ráð fyrir að þeim verði áfram veittar sérstakar heimildir til erlendra fjárfestinga samkvæmt ákvörðun Seðlabankans hverju sinni.

Við vinnslu frumvarpsins var lagt mat á það hver yrðu líkleg áhrif þess á alla helstu lykilaðila. Sú losun fjármagnshafta sem mælt er fyrir um í frumvarpinu er almennt talin vera til þess fallin að hafa jákvæð áhrif á einstaklinga og fyrirtæki. Þá er reiknað með að afgreiðslutími gjaldeyriseftirlits Seðlabankans á þeim takmörkunum sem eftir standa verði styttri og að málsmeðferðin verði einfaldari. Losunin yrði eins og áður hefur komið fram framkvæmd í skipulegum og varfærnum skrefum til að draga úr hættu á að álag á lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja og greiðslujöfnuð þjóðarbúsins verði of mikið. Ekki er reiknað með því að gildistaka frumvarpsins muni hafa teljandi bein áhrif á tekjur og gjöld ríkissjóðs en til lengri tíma litið er reiknað með að losun hafta geti haft jákvæð áhrif á lánshæfismat og þar með skuldastöðu ríkissjóðs og vaxtabyrði vegna skuldanna.

Eins og áður hefur komið fram í opinberri kynningu á þessu máli er hér um að ræða tímamótaskref frá því að fjármagnshöft voru kynnt til sögunnar á árinu 2008. Við höfum með fyrri aðgerðum stjórnvalda búið í haginn fyrir að geta stigið þessi skref. Það má segja að skuggi haftanna hopi stöðugt þetta árið en framhaldið veltur á ýmsu. Við erum ekki að stíga fullt skref til afnáms hafta með þessu máli en við stígum mjög stórt og mikilvægt skref. Eftir að þetta skref hefur verið stigið mun þorri almennings á Íslandi ekki finna fyrir höftunum, ekki það að allir Íslendingar hafi mikið fundið fyrir þeim í sínum dagsdaglegu störfum en þó hafa komið fram áminningar um að þau eru enn til staðar hér og hvar, svo sem vegna ferðalaga eða annarra venjulegra fjármálahreyfinga sem geta komið upp í ævi hvers manns.

Samandregið má þess vegna segja að við séum að stíga skref í átt til þess að ástandið verði sambærilegt því sem gildir í öðrum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu og við höfum mátt venjast frá því að við urðum aðilar að því, að fjármagnshreyfingar að meginstefnu til séu heimilar, þær séu frjálsar en með undanþágum. Það verður viðvarandi verkefni stjórnvalda að halda áfram að þroska og þróa umgjörðina með fjármagnshreyfingum. Við höfum á þessu ári kynnt lagabreytingar sem geta stutt betur við stjórntæki stjórnvalda í þeim tilgangi að viðhalda betur fjármálalegum stöðugleika í landinu en því verki verður í sjálfu sér aldrei lokið.

Ég vonast til þess að við getum á fyrri hluta næsta árs stigið enn frekari skref en svo verður á næsta ári tímabært að fara að hugleiða hvenær við verðum í aðstöðu til að stíga skrefið til fulls og með hvaða hætti menn hyggjast taka á þeim hluta vandans sem enn er til staðar og tengist aflandskrónuhlutanum. Eins og kunnugt er eru rétt um 10% af landsframleiðslu Íslands enn inni í því mengi og stefna inn á læsta reikninga í samræmi við lög sem samþykkt voru fyrr á árinu.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu mælist ég til þess að frumvarpinu verði að aflokinni þessari umræðu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.